Lýsing
Rétt val á ljósgjafa er mikilvægt. Notið ekki stærri perur en þið þurfið og gætið að því að lampabúnaðurinn dragi ekki um of úr birtu. Notið flúorpípur þar sem þess er kostur.
Umhverfið ræður miklu um hve mikla lýsingu þarf. Ljósir litir á lofti, veggjum, gluggatjöldum og gólfum geta sparað mikla lýsingu. Haldið lömpum hreinum.
Munið að slökkva á eftir ykkur. Oft loga ljós að óþörfu þar sem engin hefst við. Slíkt getur einnig skapað eldhættu.
Þvottatækin
Skolun með köldu vatni fyrir þvott getur sparað orku. Hvort sem um er að ræða þvottavél fyrir klæðnað eða leirtau, er hægt að sleppa forþvotti fyrir vikið.
Fyllið þvottavélina og nýtið hana þannig til fullnustu. Það munar litlu á orkunotkun á fullri vél og hálfri. Því er mikill sparnaður í að þvo eina fulla vél frekar en tvær hálfar.
Margar vélar eru með sparnaðarstillingar. Með því að nota þær er hægt að spara töluverða orku. Notið ekki hærra hitastig en nauðsynlegt er.
Kæliskápur
Hæfilegt hitastig er +4-5°C. Margir freistast til að hafa skápinn kaldari, en við hverja gráðu sem hitinn lækkar eykst raforkunotkuntalsvert. Hafið hitamæli í skápnum.
Kæliskápurinn skilar hita frá sér um kæligrindina á bakinu. Hún þarf að vera hrein og nægilegt loftrými á bak við og ofan við skápinn til kælingar. Þetta ræður miklu um orkunotkun.
Ef þéttikantur á skáphurðinni er orðinn harður og óþéttur, fer mikið af orku til spillis.
Frystir
Nægilegt frost er -18°C. Við hverja gráðu sem frostið er aukið, eykst rafmagnsnotkun um 5%. Þannig er orkunotkun við -25°C um 40% meiri en við -18°C.
Sömu reglur gilda að flestu leyti um frystinn og kæliskápinn. Halda þarf kæligrindinni hreinni, en loftræsting og umhverfishiti eru ennþá mikilvægari fyrir frystinn. Hafið hann í köldu herbergi.
Tómur frystir notar ekki minni orku en fullur. Þar sem frystirinn er oft eitt orkufrekasta heimilstækið, er skynsamlegt að nýta hann vel, ellegar tæma hann alveg og slökkva á honum þegar þörfin er lítil.
Eldavél
Pottar og pönnur eru af ýmsum gerðum. Botninn þarf að vera sléttur og skal ætíð hylja eldunarhelluna.
Skipuleggið eldunina. Stundum er hægt að hita fleiri en eina tegund af grænmeti í sama potti. Athugið að stytta suðutíma, þar sem suða heldur áfram um stund eftir að slökkt hefur verið undir. Notið lítið vatn, nýtið ykkur hraðsuðupotta þar sem það á við.
Notið ofninn á réttan hátt. Bakið fleiri en eina tegund í einu. Hitið marga rétti samtímis. Grillið er orkufrekt. Það þarf um tvöfalt meiri orku í að grilla kótilettur en að pönnusteikja.
Húshitun
Hitastigið innanhúss ræður að sjálfsögðu miklu um orkunotkunina. Flestir telja 20°C hæfilega hitastillingu þar sem fólk hefst mest við að degi til, en lægri í svefnherbergjum, t.d. 18°C. Fyrir hverja gráðu sem hitastillingin er hækkuð, eykst orkunotkunin um 5-6%. Notið því hitastilli. Lækkið hitastigið þegar þiðeruð að heiman.
Tvöfalt eða þrefalt gler og góð einangrun veggja og ekki síður þaks, dregur mjög úr orkusóun. Mikið varmatap er um glugga og dyr. Heppilegra er að lofta hressilega um íbúðina stutta stund í einu, en að hafa rifur á gluggum allan daginn til loftræstingar.
Ofnar skulu að jafnaði vera á útveggjum, þannig fæst jafnari hiti og síður er hætt við gólfkulda. Þess skal gætt að hylja ekki ofna undir gluggum með síðum gluggatjöldum. Það er orkusóun og getur skapað eldhættu þar sem eru þilofnar með beinni rafhitun.
Rafhitað þvottavatn
Algengt er að vatnshitarinn sé stilltur á 70-80°C, sem er þó óþarflega hátt. Auk þess að vera orkusóandi eykur slíkur vatnshiti slysahættu. Hæfilegt hitastig er 55-60°C. Það fer umframorka í að viðhalda vatninu 20°C heitara en þörf er á.
Notið sturtuna eins oft og þið getið í stað baðkersins. Bent er á að orkunotkun við 10 mínútna steypibað er um þriðjungur af orkunotkun við bað í keri af venjulegri stærð.
Við uppþvott er óþarft að nota heitt vatn við fyrstu skolun af leirtaui. Notið kalt vatn við skolun og safnið síðan heitu vatni í sjálfan uppþvottinn, - ekki láta renna stöðugt.
Annað
Kaffivélin nýtir orku mun betur en gert var með "gömlu aðferðinni". En munið að láta ekki kaffivélina um að halda kaffinu heitu, notið hitakönnur.
Þurrkið þvott úti hvenær sem til þess viðrar og sparið þannig rafknúinn þurrkara en hann er orkufrekur.
Margir láta sjónvarpstæki vera í gangi allan þann tíma sem útsending varir, þó ekki sé verið að horfa á það. Látið eftir ykkur að slökkva - stundum.