Opinn raforkumarkaður

Réttur til að velja sér raforkusala

Landsmenn allir geta frá og með 1. janúar 2006 samið um að kaupa rafmagn af þeim sem þeir kjósa, hvort sem er til atvinnurekstrar, heimilisnotkunar eða annarra hluta.

Upplýsingar um seljendur á markaði og rafmagnsverð má finna á heimasíðu Neytendastofu, www.neytendastofa.is eða Orkustofnunar, www.os.is. Þar má nálgast yfirlit um gjaldskrár fyrirtækjanna og áætla útgjöld vegna orkunotkunar til að sjá hvar hagkvæmast sé að kaupa rafmagn hverju sinni.

Samkeppnin nær einungis til framleiðslu og sölu rafmagns. Flutningur þess og dreifing verða áfram sérleyfisstarfsemi en undir eftirliti Orkustofnunar.

Sé ekki óskað eftir viðskiptum við nýjan raforkusala fá notendur rafmagnið áfram hjá þeim orkusala, sem þeir hafa fengið rafmagnið frá hingað til, en geta hins vegar hvenær sem er fært viðskiptin til annars raforkusala.

Dreifiveitunum sem sjá um dreifingu raforku til notenda ber lagaskylda til að gera nýjum raforkukaupendum skýra grein fyrir rétti sínum til að velja sér raforkusala.

Nýir kaupendur teljast þeir vera sem

  • fá rafmagn í nýjar íbúðir eða ný hús

  • hafa ekki keypt rafmagn undanfarna 12 mánuði af Orkubúinu.

Nýr notandi fær strax afhent rafmagn en fær fjögurra vikna umþóttunartíma til að kynna sér það sem í boði er og semja um rafmagnskaup sín.

Niðurgreiðslur 


Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 78/2002 og  lögum um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 58/2004 þurfa allir notendur sem vilja njóta niðurgreiðslu að sækja um það sérstaklega til Orkustofnunar sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna.

Eigandi íbúðarhúsnæðis sem ekki hefur kost á fullri hitun með jarðvarma getur sótt um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar til Orkustofnunar sem metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum sbr. 4. grein séu uppfyllt. Sækja má um niðurgreiðslu með eftirtöldum leiðum:

  • Fylla út umsókn á heimasíðu Orkustofnunar www.os.is og senda rafrænt til hennar.
  • Fylla út eyðublað á pappírsformi og senda í pósti til Orkustofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Orkustofnun sendir eyðublaðið til þeirra sem þess óska.

Orkustofnun veitir fúslega nánari upplýsingar um niðurgreiðslulögin og aðstoðar íbúðareigendur við umsóknina eins og kostur er. Hringja má í síma 569 6000 eða senda tölvupóst á netfangið nidurgreidslur@os.is.