Opinn raforkumarkaður

Val á söluaðila rafmagns

Orkubú Vestfjarða er bæði sölufyrirtæki í raforku og dreifiveita.

Raforkumarkaðurinn er opinn og á samkeppnismarkaði. Viðskiptavinir hafa því val um það hvar þeir kaupa sína raforku. Dreifihlutinn er hins vegar ekki á samkeppnismarkaði og því ekki hægt að velja milli fyrirtækja um dreifingu.

Það er mjög mikilvægt að þú veljir þér raforkusala og skráir þig í viðskipti. Orkubúi Vestfjarða er óheimilt að afhenda rafmagn til þeirra sem ekki eru með gildan samning við raforkusala.

Sé samningur ekki til staðar, verðum við að stöðva afhendingu raforku.

Eftir að þú hefur tilkynnt okkur um flutninga á dreifiveitusvæði okkar þarftu að hafa samband við þann raforkusala sem þú kýst að vera í viðskiptum við. Sá raforkusali sér þá um að koma á raforkuviðskiptum fyrir viðkomandi húsnæði.

Ef þú kýst að skipta um raforkusala þá er það gert með sambærilegum hætti og við flutning, þú hefur samband við þann raforkusala sem þú kýst að hafa viðskipti við og raforkusalinn sér um skiptin.

Við val á raforkusala þarft þú annað hvort að senda inn tilkynningu til raforkusalans á vefnum, hafa samband símleiðis eða með tölvupósti.

Niðurgreiðslur

Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 78/2002 og  lögum um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 58/2004 þurfa allir notendur sem vilja njóta niðurgreiðslu að sækja um það sérstaklega til Orkustofnunar sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna.

Eigandi íbúðarhúsnæðis sem ekki hefur kost á fullri hitun með jarðvarma getur sótt um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar til Orkustofnunar sem metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum sbr. 4. grein séu uppfyllt. Sækja má um niðurgreiðslu með eftirtöldum leiðum:

  • Fylla út umsókn á heimasíðu Orkustofnunar www.os.is og senda rafrænt til hennar.
  • Fylla út eyðublað á pappírsformi og senda í pósti til Orkustofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Orkustofnun sendir eyðublaðið til þeirra sem þess óska.

Orkustofnun veitir fúslega nánari upplýsingar um niðurgreiðslulögin og aðstoðar íbúðareigendur við umsóknina eins og kostur er. Hringja má í síma 569 6000 eða senda tölvupóst á netfangið nidurgreidslur@os.is.