Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp

Skipulagsmál, leyfi og framkvæmdir

Tungudalsvirkjun-Skutulsfirði.jpgFyrstu hugmyndir um að virkja afrennslisvatnið úr Vestfjarðagöngum, sem rann út í Tunguá í Skutulsfirði, munu hafa kviknað fljótlega eftir að „fossinn opnaðist“ við gangagerðina árið 1993. Þegar á því ári vann Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens greinargerð um þennan virkjunarkost fyrir Orkubú Vestfjarða.

Talið var að vatnsmagnið kynni að minnka þegar frá liði og þess vegna var það ekki fyrr en laust eftir aldamótin, þegar sýnt þótti að stöðugleiki væri kominn á rennslið, að skriður komst á málið. Þá voru gerðar nákvæmari rannsóknir á vatnafari Tunguár, bæði með og án vatnsins úr jarðgöngunum. Önnur helstu gögn sem Orkubúið lét vinna voru Umfjöllun um náttúrufar og menningarminjar á framkvæmdasvæði rennslisvirkjunar í Tunguá í Skutulsfirði og Gróðurgreining í Tungudal vegna virkjunar í Tunguá. Báðar voru skýrslurnar unnar af Náttúrustofu Vestfjarða og gefnar út snemma árs 2004.

Skipulagsstofnun tilkynnti þá niðurstöðu vorið 2004, að samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri bygging 700 kW virkjunar í Tungudal ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Ísafjarðarbær er landeigandi á öllu virkjunarsvæðinu og lagði vatnsréttindin inn í Orkubúið við stofnun þess. Ekki var hægt að úthluta Orkubúinu lóð undir virkjunina nema gildandi skipulagi yrði breytt. Því ferli lauk með samþykkt Ísafjarðarbæjar á deiliskipulagi af svæðinu haustið 2004 og var þar m.a. um að ræða samþykkt á lóð og byggingarreit fyrir stöðvarhús ásamt aðkomu að lóðinni.

Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til yfirferðar og hlaut þá meðferð sem skipulags- og byggingarlög mæla fyrir um og tók gildi í ársbyrjun 2005. Framkvæmdaleyfi var samþykkt í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar haustið 2005. Skipulag fyrir Tungudal var síðan endurskoðað vegna tilkomu virkjunarinnar. Í dalbotninum voru skipulagðir göngustígar sem tengjast virkjuninni og göngubrú yfir ána er sameiginleg fyrir gæslumenn stöðvarinnar og útivistarfólk.

Við hönnunina var lögð á það mikil áhersla, að útlit hússins og umhverfi stöðvarinnar félli sem best að landslagi og þeim þörfum sem fyrir voru, svo sem varðandi tjaldsvæði og útivist.

Verklegar framkvæmdir hófust sumarið 2005 en orkuframleiðsla í janúar 2006. Framkvæmdum lauk sumarið 2007. Vígsludagur Tungudalsvirkjunar var 26. ágúst 2007, en þann dag 30 árum fyrr var stofnsamningur um Orkubú Vestfjarða undirritaður.

Vatnafar.

Vatnasvið Tungudalsvirkjunar er óvenjulegt að því leyti, að hér er fyrst og fremst verið að nýta afrennsli Vestfjarðaganga auk grunnrennslis úr Tunguá. Göngin í heild sinni ná til vatnasviða þriggja fjarða, Skutulsfjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar, auk Syðridals í Bolungarvík. Stærð afrennslissvæðisins til ganganna hefur ekki verið skilgreind eða rannsökuð nákvæmlega. Tveir þriðju hlutar Vestfjarðaganga eða um sex kílómetrar af níu halla að Tungudalsmunnanum.

Tvær virkjanir í eigu Orkubús Vestfjarða hafa misst hluta af grunnrennsli sínu eftir tilkomu Vestfjarðaganga, Reiðhjallavirkjun í Bolungarvík og svokölluð Nónvél í rafstöðinni að Fossum í Engidal í Skutulsfirði. Reynslan á þeim rúma áratug sem liðinn er hefur leitt í ljós, að í lélegu vatnsári hafa tapast um 2 GWh í orkuframleiðslu en í góðu vatnsári um 3 GWh.

Vatnasvið Tunguár er 16,3 km2 en vatnstaka úr ánni takmarkast við rúmlega 300 l/s. Hámarksrennsli er líklega 1 til 2 m3/s en lágmarkið kringum 150 l/s. Vatnsveita Ísafjarðar nýtir vatn úr jarðgöngunum og kemur virkjunin því einungis til með að nýta „afganginn“. Afrennsli ganganna eftir vatnstöku Vatnsveitunnar er á bilinu 500 til 700 l/s. Hámarksrennsli er í ágúst en lágmarksrennsli í maí.

Virkjunartilhögun.

Virkjunarsvæðið takmarkast við land undir inntaksmannvirki, þrýstivatnspípur og stöðvarhús, svo og aðkomuveg og göngubrú, sem eru sameiginleg með tjaldsvæði Ísafjarðarbæjar í Tungudal. Inntaksmannvirki virkjunarinnar er steinsteypt þró, sem tekur við vatni úr Vestfjarðagöngum skammt frá forskála ganganna.

Engin ný mannvirki voru byggð í sjálfri ánni heldur gerður samningur milli Orkubús Vestfjarða og Vatnsveitu Ísafjarðar um afnot af aflagðri vatnsveitustíflu í Tunguá. Minni háttar breytingar voru gerðar stíflunni til að geta fætt tengilögn sem grafin var frá stíflunni að inntaksþrónni. Með þessu varð til nokkurs konar hliðarveita. Flutningslína fyrir raforku frá virkjuninni var til staðar fáeina metra frá stöðvarhúsinu.

Orkusvið og rafveitusvið Orkubúsins gerðu samkomulag um að hafa spennistöðina stærri en þörf krafði beinlínis vegna tengingar við raforkukerfið. Ákveðið var að þar yrði jafnframt dreifipunktur fyrir raforkukerfið fyrir botni Tungudals, skíðasvæðið og jarðgöngin. Einnig yrði þar aðstaða fyrir millispenni og rofa til að geta aukið flutningsgetu til Suðureyrar ef þörf krefur.

Nokkrar kennitölur, hönnun og framkvæmd.

Hæð inntaksþróar við affall Vestfjarðaganga  132 m.y.s. 
Lengd þrýstipípu, þvermál 800 mm   1.192 m 
Rúmmál inntaksþróar     66 m3 
Yfirfall sogþróar undir stöðvarhúsi   19,2 m.y.s. 
Verg fallhæð      112,8 m 
Hæðarkvóti gólfs í stöðvarhúsi   20,5 m.y.s

Byggingar 

Stöðvarhús 55 m2 
Spennistöð 35 m2

Vélar og orka

Gerð vatnshverfils  Francis, láréttur ás 
Framleiðandi vatnshverfils VaTech, Þýskalandi 
Hönnunarrennsli  700 l/s 
Raunfallhæð við fullt álag 102 m 
Snúningshraði vatnshverfils 1.500 s/min 
Spenna rafala   400 V 
Afl rafala   1.000 kVA 
Afl virkjunar   700 kW 
Árleg orkuvinnsla  5 GWh 
Nýtingartími   7.200 st/ári

Hönnun

Vatnsvegir og vélbúnaður  Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. 
Burðarvirki og eftirlit  Tækniþjónusta Vestfjarða hf. 
Arkitekt húss og lóðar  Hallvarður Aspelund

Framkvæmd

Byggingarverktaki    KNH hf., Ísafirði 
Jarðvinna og niðurlagning pípu  Afrek ehf., Reykjavík 
Uppsetning á vél og búnaði í spennistöð Orkubú Vestfjarða ohf. 
Raflagnir, húskerfi    Rafskaut ehf., Ísafirði 
Lóðarframkvæmdir    Úlfar ehf., Flateyri