Hvalárvirkjun, uppistöðulón og stíflur

17. janúar 2018

Mikið hefur verð rætt um Hvalárvirkjun að undanförnu og sitt sýnist hverjum.  Þegar rætt er um verklegar framkvæmdir, hvort heldur það eru orkumannvirki eins og þau sem tengjast Hvalárvirkjun, vegagerð út á landsbyggðinni eða jafnverl varnarmannvirki fyrir skriðu og snjóflóðum, þá á almenningur oft á tíðum erfitt með að átta sig á umfangi viðkomandi mannvirkja úti í náttúrunni fullbyggð og búið að ganga frá.  Hvað þá heldur að átta sig á ásýndinni nokkrum árum eftir lok framkvæmda, t.d. hversu fljótt gróður hefur náð sér á strik og veðrun á grjóti er búinn að þróast. 

Þótt Orkubú Vestfjarða sé ekki aðili að Hvalárvirkjun, þá má segja að aðrar virkjanir á Vestfjörðum, sem eru í undirbúningi, þurfa einnig að fara í leyfis og skipulagsferli og ekki úr vegi að sýna yfirstaðnar framkvæmdir sem innlegg í umræðuna.   Eitt af því sem fólk á erfitt að átta sig á er umhverfisáhrif jarðvegsstíflanna, sem um leið eru hluti af nýtingu náttúrulegra vatna ofan inntaks virkjana.  Það vill svo til að landslag í Steingrímsfirði kringum Hólmavík er ekki ósvipað landslaginu í Ófeigsfirði. Ávöl klapparholt með górðurþekju á milli hjalla, en ekki háar og brattar hlíðar eins og er víða annarstaðar á Vestfjörðum.  Í næsta nágernni við Hólmavík er virkjun í eigu Orkubúsins sem heitir Þverárvirkjun og er 2,2 MW að stærð.  Árið 1999 til 2001 var virkjunin og stíflan endurbyggð. 

Stíflan var hækkuð um 12 metra og um leið varð hún gerð að jarðvegsstíflu.  Helsti munurinn á stíflustæði Þverárvirkjunar og Hvalárvirkjunar, er að stíflan er í landhæð 90 metra yfir sjávarmáli og gróðurþekjan mun meiri en í Ófeigsfirði þar sem stíflurnar eru í landhæð yfir 300 metrum.  Eftir endurbyggingu, þá er þessi stífla svipuð og hinar fimm, sem fyrirhugað er að byggja vegna Hvalárvirkjunar, og það þótt Hvalá sé 20 sinnum stærri í afli.  Stífla Þverárvirkjunar er nú 22 metra há og lengdin er 550 metrar.   Stíflur Hvalárvirkjunar eru frá 13 til 33 metra á hæð og lengdir frá 150 til 1.000 metra.   Það má kannski orða það þannig að stífla Þverárvirkjunar er gott meðaltal af hinum fimm.  Hér á eftir er sýnd loftmynd af stíflunni og tvær ljósmyndir.  Skýringartexti er skrifaður við hverja mynd.

hvalarvirkjun_1.jpg
Mynd 1.  Mynd úr kortagrunni Loftmynda ehf.  Mesta hæð stíflu er 22 metrar þar sem pípa og botnloka er staðsett og náttúrulegt afrennsli vatnsins var áður.  Lengd stíflunnar er 550 metrar.  Vegtengingarnar loftmegin uppá stífluna eru ekki brattar því hæð stíflunnar er lítil þar sem þær eru.  Það vantar um 2 metra uppá til að vatnið sé fullt.

hvalarvirkjun_2.jpg
Mynd 2.  Yfirlitsmynd sem sýnir Þiðriksvallavatn, sem er uppistöðulón Þverárvirkjunar, og 550 metra langa stíflu, sem nánast hverfur inní landslagið á þessari mynd.  Stöðvarhús virkjunarinnar til vinstri.  Í sömu átt og stíflan sést, ef vel að er gáð, rafmagnsstaur, sem er 8 metra yfir yfirborði landsins þar sem hann stendur og stíflan þar aftanvið.

hvalarvirkjun_3.jpg
Mynd 3.  Myndin er tekin neðan við hæsta hluta stíflunnar uppá öðrum gilbarminum til að sýna hversu fljótt stíflan lækkar í hæð beggja megin við gilið sem er dæmigert fyrir stíflur við náttúruleg vötn á Vestfjörðum.  Hæð stíflunnar þar sem hún er mest (22 metrar), en er lítill hluti af heildarlengd hennar, enda er gildið sem hún lokar einungis 20 metra breitt.  Stærsti hluti stíflunnar er því fáeinir metrar á hæð.

Náttúruleg vötn nýtt til miðlunar.

Landslag á Vestfjörðum hentar illa til að byggja miklar stíflur og mynda stór uppistöðulón líkt og t.d. Blöndulón.  Sú stífla er byggð á hásléttu og hver metri í hæð geymir mikið vatn sem er langt umfram miðlunarmöguleika á Vestfjörðum.   Hvergi er hægt að virkja á hagkvæman hátt, hvorki á  Vestfjörðum né annarstaðar, án miðlana, nema um sé að ræða rennslisvirkjanir.  Hvalárvirkjun er af þeirri stærðargráðu að hún verður að hafa miðlanir, annars er stýranleiki virkjunarinnar ekki nægjanlegur.  Gríðarlegur fjöldi er af náttúrlegum vötnum á hálendinu frá Drangajökli og suður fyrir Steingrímsfjarðarheiði og spurningin er þá sú hvort nýting fárra vatna af heildinni sé ásættanlegt umhverfislega séð enda ekki verið að sökkva grónu landi sem neinu nemur.  Það sama á við um Glámuhálendið þar sem Orkubúið er að skoða virkjunarkosti.

Orkusvið janúar 2018
Sölvi R Sólbergsson

01. desember 2022

Að virkja og vernda loftslag – hvar á að virkja ?

Orkuskiptin kalla á vangaveltur um hvort þörf sé á nýjum virkjunum.  Ef útrýma á jarðefnaeldsneyti...

28. nóvember 2022

Þrjár nýjar hleðslustöðvar

Nú hafa verið teknar í notkun þrjár nýjar hleðslustöðvar hjá Orkubúi Vestfjarða, tvær á Hvítanesi...

14. nóvember 2022

Ný kynslóð af raforkumælum í Súðavík

Árið 2005 hóf Orkubúið innleiðingu á snjallmælum fyrst veitna.