Breytingar á gjaldskrá 1. janúar 2019

02. janúar 2019

Gjaldskrá Orkubús Vestfjarða vegna dreifingar raforku og fyrir hitaveitu breytist frá og með 1. janúar 2019.
Áhrif breytinganna á heimili með beina rafhitun eru innan við hálft prósent, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, en áætluð hækkun verður um 1% hjá heimilum í þéttbýli sem tengd eru fjarvarmaveitu.

Heimili með beina rafhitun 
Taxtar í dreifingu raforku í þéttbýli og dreifbýli breytast þannig að fastagjald lækkar um 10% en orkugjald hækkar um 7% hjá þeim notendum sem eru með minna en 80A málstraum.  Þeim hópi tilheyra m.a. öll heimili á Vestfjörðum. 
Í 6. gr. laga nr. 78/2002 segir: „Upphæð niðurgreiðslna á raforku til húshitunar skulu nema jafngildi kostnaðar við flutning og dreifingu raforkunnar frá virkjun til notanda.“
Þetta er mikilvægt fyrir heimilin því ákvæðið þýðir að hækkun orkugjaldsins til húshitunar er mætt að fullu með auknum niðurgreiðslum hjá heimilum sem nota beina rafhitun og nota minna en 40.000 kWh á ári til húshitunar.
Hækkun á þeim hluta reikningsins sem snýr að annarri notkun er mætt með lækkun fastagjaldsins.  Nettó áhrif á heimili með beina rafhitun eru því nánast engin.

Heimili með fjarvarmakyndingu
Hækkun orkureiknings hjá þeim heimilum sem eru tengd fjarvarmaveitu og njóta niðurgreiðslna er um 1%. 
Heimili sem nota fjarvarma greiða þó heldur minna en þau heimili sem eru með beina rafhitun, þrátt fyrir þessa hækkun.  Hækkunin er tilkomin vegna hækkunar á orkugjaldi og rúmmetragjaldi um 7%, en á móti kemur lækkun á fastagjaldi um 10% og  aukning niðurgreiðslna í samræmi við lög 78/2002.

Stærri notendur  (fyrirtæki)
Orkutaxti hjá notendum með meira en 80A málstraum hækkar um 3%, en fastagjöld sömu notenda lækka um 10%.  Aflgjald hækkar um 3% og þjónustugjöld hækka um allt að 3%.  Söluverð raforku til fyrirtækja sem eru í viðskiptum við Orkubú Vestfjarða hækkar hinsvegar ekki.  Ætla má að orkureikningur stærri notenda hækki þannig á bilinu 2 til 3%.  Fyrirtæki njóta ekki niðurgreiðslna.

Söluverð raforku
Engar breytingar eru gerðar á söluverði raforku frá Orkubúi Vestfjarða.


Ísafirði 2. janúar 2019
Orkubú Vestfjarða ohf.

26. ágúst 2019

Borun eftir jarðhita ber árangur

Leit á vegum Orkubús Vestfjarða að auknum jarðhita að Laugum í Súgandafirði hefur nú borið árangur...

22. maí 2019

Ársreikningur 2018  samþykktur

Ársreikningur Orkubús Vestfjarða ohf fyrir árið 2018 var samþykktur á aðalfundi félagsins í gær...

13. maí 2019

Ársfundur Orkubús Vestfjarða 2019

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða verður haldinn á Hótel Ísafirði þriðjudaginn 21. maí kl. 12:00