Verðskrárhækkun fyrir dreifingu raforku

01. mars 2009

Hækkun verðskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu raforku.

Á fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða ohf. þann 28. janúar s.l. var ákveðið að hækka taxta verðskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu raforku að jafnaði um 13%  frá og með 1. mars n.k..  Tengigjöld verða óbreytt að sinni.  
Helsta breyting í uppbyggingu verðskrár er að  tveggja þrepa verðlagningu dreifingar orkunnar er hætt og fast árlegt gjald hækkað til að mæta tekjutapi ásamt hækkun á ódýrara þrepinu sem eftir breytingu nær til allrar orku.

Hækkun þessi er rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1/8 2008. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 23,6% síðustu 6 mánuði og vísitala neysluverðs um 8,4% og verðbólga síðustu 12 mánaða mælist rúm 18%. 
Þá er einnig bent á á undanförnum árum hefur Orkubú Vestfjarða aðeins nýtt um 90% af tekjuramma sínum fyrir dreifingu raforku.

Á fyrrgreindum fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða var ennfremur gerð svofelld bókun:

Með raforkulögunum var heimilað að skipta dreifiveitusvæðum raforku í dreifbýli og þéttbýli. Þessi uppskipting hafði það í för með sér að notendur í dreifbýli greiða umtalsvert hærra gjald vegna raforkudreifingar en notendur í þéttbýli.

Við setningu raforkulaga var því heitið af stjórnvöldum að niðurgreiða að fullu þann kostnaðarmun sem hlýst óhjákvæmilega af því að dreifa rafmagni um strjálbýlli svæði. Við það hefur ekki verið staðið. Með 13% hækkun verðskrár Orkubús Vestfjarða  fyrir raforkudreifingu mun þessi munur aukast enn. Stjórn OV fer fram á að þessi munur verði jafnaður með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði  og þannig staðið við gefin fyrirheit stjórnvalda.
Þann 1. mars n.k..  hækka niðurgreiðslur vegna raforkudreifingar í dreifbýli úr 0,88 kr/kWh í 0,93 kr/kWh.

 Þess var jafnframt óskað að við ákvörðun á niðurgreiðslum raforku til húshitunar verði tekið mið af hinni nýju verðskrá og niðurgreiðslurnar hækkaðar á veitusvæði Orkubús Vestfjarða. 
Orkubúi Vestfjarða hafa ekki borist upplýsingar um breytingu á niðurgreiðslum raforku til húshitunar.

Þar sem orkuverðsþátturinn er óbreyttur hefur þessi hækkun á dreifingunni þau áhrif að heildarreikningur fyrir raforku og dreifingu hækkar um tæp 7% hjá þeim sem ekki njóta niðurgreiðslna. Vegna þess að niðurgreiðslur hækka ekki til jafns við hækkun verðskrár verður hlutfallsleg hækkun þeirra sem njóta niðurgreiðslu hærri.

Ísafirði 27/2 2009

Kristján Haraldsson 
orkubússtjóri

13. janúar 2020

Breyting á verðskrá fyrir dreifingu og sölu á raforku

Verðskrá Orkubús Vestfjarða fyrir dreifikostnað á raforku hækkaði um áramótin um 2,5% bæði...

12. janúar 2020

Staðan á suðursvæði

Um klukkan 23:00 voru flestir notendur komnir með straum með varaaflskeyrslu og síðustu notendur...

13. desember 2019

Orkubúið - alltaf nýjustu upplýsingar strax !

Í óveðrinu undanfarna daga hafa margir nýtt sér þann möguleika að fylgjast með mikilvægum...