Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf.

18. maí 2012

Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. var haldinn á Ísafirði 11. maí 2012.

Fækkun íbúa á Vestfjörðum er stærsta ógnin við framtíðarrekstur Orkubús Vestfjarða. Árið 1984 bjuggu um 10.400 á veitusvæði Orkubús Vestfjarða en nú eru íbúar þar um 7.000. Með sama áframhaldi verður engin íbúi eftir á Vestfjörðum að 50 árum liðnum. Það verður að spyrna við fótum nú þegar og reyna að snúa þessari þróun við.

Fyrstu og brýnustu mótaðgerðir verða að koma frá ríkisvaldinu og þær eru bættar samgöngur og jöfnun búsetuskilyrða. Með jöfnun búsetuskilyrða er  m.a. átt við  fulla jöfnun húshitunarkostnaðar og fulla jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku í dreifbýli.

Rafmagnsverð á Vestfjörðum stenst fyllilega samkeppni við það sem best gerist annars staðar á Íslandi en þrátt fyrir það er orkukostnaður heimila og fyrirtækja hærri á Vestfjörðum og er ástæðan sú að Vestfirðingar hafa ekki aðgang að ódýrari orkugjöfum en rafmagni til húshitunar.

Það er umtalsvert kostnaðarsamara að dreifa raforkunni í dreifbýli heldur en þéttbýli og greiða íbúar í dreifbýli töluvert hærra verð fyrir dreifingu raforkunnar þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Það er réttlætismál og nauðsynleg aðgerð til styrkingar byggðar að þessar niðurgreiðslur verði auknar þannig að raforkuverð verði það sama í þéttbýli og dreifbýli.

Árið 2011 varð hagnaður af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða sjöunda árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var undir meðaltali síðustu 10 ára. Flutningskerfi Orkubúsins urðu ekki fyrir neinum meiri háttar rekstraráföllum. 

Hagnaður varð af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 287,8 Mkr., en þegar tekið er tillit til tekjuskatts er hagnaður ársins um 230,2 Mkr..  Afskriftir námu alls 278,4 Mkr.. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2011 voru alls 5.882 Mkr. og heildarskuldir alls 757 Mkr. Eigið fé nam því alls 5.125 Mkr. sem er um 87,1 % af heildarfjármagni.

Á s.l. ári var vél II í Mjólkárvirkjun endurnýjuð. Stöðvarhúsið var stækkað og 5,7 MW vél var skipt út fyrir 7 MW vél og allur rafbúnaður endurnýjaður. Framkvæmdin stóðst bæði tímaáætlun og kostnaðaráætlun. Nú í sumar verður unnið að lokafrágangi vegna Mjólkárverkefnisins. Afl vélanna í Mjólká hefur nú aukist um 2,5 MW og er kostnaður við framkvæmdirnar undir áætlun.

Á árinu 2011 var 662 Mkr. varið til fjárfestinga, þar af voru  tengigjöld og vinna greidd af öðrum 23,1 Mkr..Allar fjárfestingar voru kostaðar af eigin fé fyrirtækisins eða greiddar af þeim sem þeirra óskuðu.

Að ósk eiganda Orkubús Vestfjarða var samþykkt á aðalfundi þess að af hagnaði ársins 2011 verði greiddur arður að fjárhæð 46 milljónum króna en afgangur hagnaðar verði lagður við höfuðstól og m.a. nýttur til að mæta miklum fyrirsjáanlegum kostnaði við endurnýjun og styrkingu rafdreifikerfisins.

Í stjórn voru kjörin:

Viðar Helgason, Reykjavík

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafirði

Kolbrún Sverrisdóttir, Ísafirði

Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hólmavík og

Árni Brynjólfsson, Önundarfirði.

Nýkjörin stjórn kom síðan saman til fundar og skipti með sér verkum.

Viðar Helgason var kjörinn formaður stjórnar, Kolbrún Sverrisdóttir var kjörin varaformaður stjórnar og Viktoría Rán Ólafsdóttir var kjörin ritari stjórnar.

Ísafirði 11. maí 2012

 

Kristján Haraldsson

Orkubússtjóri

  Fylgigögn:           

Ársskýrsla Orkubús Vestfjarða hf. 2011.
Skýrsla Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra.
Glærur orkubússtjóra á aðalfundi.
Skýrsla stjórnarformanns.

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...