Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á sölumælakerfi Orkubús Vestfjarða. Unnið hefur verið markvisst að því að skipta út eldri sölumælum rafveitu í staðinn fyrir nýja kynslóð löggiltra sölumæla, sem tengjast radíókerfi Orkubús Vestfjarða. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að í árslok 2015 verði búið að skipta út öllum eldri mælum rafveitu.
Nýju sölumælarnir eru til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Ekki þarf lengur að banka upp á hjá viðskiptavinum til að lesa af mælum heldur fer álestur fram með fjarálestri í flestum tilvikum. Fyrirtækið fær einnig ný tækifæri til að bæta þjónustu og upplýsingagjöf til viðskiptavina, sem nú þegar má sjá með tilkomu Mínar síður ( Sjá leiðbeiningar). Auk þess er mun auðveldara fyrir viðskiptavini að lesa af nýju mælunum og gera tímabundnar mælingar.
Nýju sölumælarnir tengjast flestir radíókerfi Orkubús Vestfjarða, sem er mjög víðfeðmt þar sem það nær til flestra staða á Vestfjörðum. Starfsmenn hafa oft á tíðum þurft að beita skapandi hugsun með hjálp nýjustu upplýsingatækni til að tengja mæla við radíókerfið. Lengsta boðleið mælis er á Patreksfirði og er rúmlega 15 kílómetrar að lengd með hækkun upp á 455 metra (sjá mynd) og talin sú lengsta sem þekkist í radíókerfum af þessari gerð.
Orkubú Vestfjarða fékk árið 2010 heimild frá Neytendastofu til að nota innra eftirlit með raforkumælum í stað löggildinga ef fyrirtækið stenst árlega úttekt. Fyrirtækið vinnur þessa dagana að því að fá sambærilega heimild fyrir varmaorkumæla.
Eftirlitið fer þannig fram að mælum er skipað í söfn eftir árgerð og gerðarauðkenni og í framhaldi er tekið úrtak af mælum og þeir prófaðir. Standist mælar ekki úrtaksprófun þá er skipt um alla mæla í viðkomandi mælasafni. Í haust verða varmaorkumælar í fyrsta sinn teknir í úrtaksprófanir.
Framundan er tími mælaskipta og mælaprófana hjá Orkubúi Vestfjarða. Eins og oft áður þurfa starfsmenn Orkubús Vestfjarða að reiða sig á velvilja viðskiptavina við mælaskiptin þar sem þau fara fram í samráði við þá. Mælaskiptin taka u.þ.b. 30 mínútur og reynt er að valda eins lítilli truflun á þjónustu og mögulegt er.