Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu á rafmagni og hitaveitu hækka frá og með 1. janúar 2026.
Dreifing og flutningur raforku
- Gjaldskrá í þéttbýli og dreifbýli ásamt tengigjöldum hækkar um 10 %
Hækkunina má rekja til aukins rekstrarkostnaðar veitunnar m.a. vegna mikilla fjárfestinga í öflugu dreifikerfi og varaafli ásamt almennum verðlagsbreytingum.
Orkubú Vestfjarða starfar undir eftirliti Orkustofnunar og fær úthlutað fyrir fram ákveðnum tekjuheimildum ár hvert, en stjórn Orkubúsins samþykkir gjaldskrá innan tekjurammans. Hingað til hefur tekjuramminn ekki verið fullnýttur
Hitaveitu gjaldskrár
Gjaldskrá hitaveitunnar hækkar um 22%, en á móti koma talsverðar hækkanir á niðurgreiðslum til hitunar íbúðarhúsnæðis sem takmarkast þó við 40.000 kWst á ári, en 40.000 kWst nægja í flestum tilfellum til að hita meðalstórt einbýlishús og nánast allar íbúðir í fjölbýli.
Helstu ástæður hækkana eru aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi varð gríðarlegt tap á rekstri veitnanna vegna skerðinga á raforkusölu til veitnanna bæði á árinu 2022 og 2024, en aukinn rekstrarkostnaður vegna skerðinganna varð nálægt 700 milljónum króna. Á þeim tíma var ákveðið að velta ekki öllum kostnaðinum út í verðlagið strax, heldur gera það á lengri tíma. Vonast var til þess að reksturinn næði sér á strik og borð yrði fyrir báru til að vinna kostnaðinn niður á 10 árum. Í öðru lagi þurfti í kjölfar skerðinganna að endursemja um orkuverð til veitnanna og urðu hækkanir á því umtalsverðar, en á sama tíma var hægt að semja um að heimild orkusala til að skerða orkuafhendingu til veitnanna minnkaði úr rúmlega 100 sólarhringum í 4 sólarhringa.
Þess má geta að þrátt fyrir 22% hækkun gjaldskrár þá hefur verð til húshitunar, að teknu tilliti til niðurgreiðslu, hækkað talsvert minna frá því í janúar 2022. Það skýrist af mikilli hækkun niðurgreiðslna á árinu 2025 sem varð til þess að verð til húshitunar, að teknu tilliti til niðurgreiðslna, lækkaði um 27% á árinu 2025 frá árinu á undan. Hækkun á verði til húshitunar, að teknu tilliti til niðurgreiðslna, hefur því hækkað um 12% á fjórum árum, frá 1. janúar 2022. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 28,6%.