OV: flytur sig um set á Patreksfirði

30. janúar 2026

Orkubú Vestfjarða og Vélsmiðjan Logi á Pateksfirði hafa samið um skipti á fasteignum.
Orkubúið eignast húsnæði Vélsmiðjunnar við Aðalstræti 112, en í staðinn eignast Vélsmiðjan Logi húsnæði Orkubúsins í Iðngörðunum  á Vatneyri á Patreksfirði.

Orkubúið hyggst setja upp varmadælur í húsnæðinu sem nýta munu jarðhita sem fannst við boranir á síðasta ári.  Jarðhitavatnið er um 38° heitt, en varmadælurnar verða nýttar til að hita það í 68° áður en það fer til dreifingar á hitaveitukerfi Orkubúsins á Patreksfirði. 

Það er ánægjulegt að þessi lausn á húsnæðismálum hitaveitunnar sé í höfn.  Staðsetning hússins við Aðalstræti hentar einstaklega vel fyrir orkustöðina þar sem jarðhitaholan er innan seilingar í einungis 400 metra fjarlægð, sagði Elías Jónatansson, orkubússtjóri,  við undirritun samkomulagsins í dag 26. janúar.

Vélsmiðjan Logi hyggst halda starfsemi sinni áfram á nýjum stað, en smiðjan hefur verið staðsett í húsnæðinu við Aðalstræti allt frá stofnun fyrirtækisins árið1955 eða í 70 ár.

Það er okkur mikilvægt að húsnæðið, sem hefur hýst Vélsmiðjuna frá stofnun, nýtist samfélaginu áfram þótt í breyttri mynd sé.  Starfsmenn smiðjunnar sinntu gjarnan viðhaldi á olíukyndingu hjá bæjarbúum í gamla daga og það er því vel viðeigandi að nú fái húsnæðið það hlutverk að miðla hita til bæjarbúa, sagði Barði Sæmundsson, aðal eigandi og framkvæmdastjóri Vélsmiðjunnar Loga.

Reiknað er með að skiptin fari fram 15. maí og mun þá strax hefjast vinna við að undirbúa húsnæðið fyrir nýja starfsemi.  Í sumar er svo reiknað með að fara í framkvæmdir við hitaveitulagnir að og frá orkustöðinni, en áformað er að taka stöðina í notkun á næsta ári.

1. Handsal.jpg

Handsal samnings – Elías Jónatansson og Barði Sæmundsson

2. Logi - Aðalstræti 112.jpg

Vélsmiðjan Logi – Aðalstræti 112, Patreksfirði

3. OV-Vatneyri.jpg

Orkubú Vestfjarða – Iðngarðar Vatneyri á Patreksfirði

4. Hópmynd.jpg

Hópmynd – frá vinstri:
Halldór Magnússon, framkvæmdastjóri veitusviðs OV
Elena Dís Víðisdóttir, verkefnastjóri hjá OV
Ólafur Byron, svæðisstjóri OV á Patreksfirði
Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs OV
Elías Jónatansson, orkubússtjóri OV
Barði Sæmundsson, framkvæmdastjóri og aðal eigandi Vélsmiðjunnar Loga
Steinunn Jóhannsdóttir, meðeigandi Vélsmiðjunnar Loga
Ólafur Sæmundsson, meðeigandi Vélsmiðjunnar Loga

08. janúar 2026

Gjaldskrá Orkubús Vestfjarða 1. janúar 2026

Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu á rafmagni og hitaveitu hækka frá og með 1. janúar...

16. október 2025

Lokað fyrir umferð á Skógarbraut vegna vinnu við hitaveitulögn

Lokað verður fyrir umferð um Skógarbraut á Ísafirði í dag og á morgun, 16. og 17. október.

04. september 2025

Viðvörun – Fölsuð QR kóðamerking á hleðslustöðvum !

Við viljum vara við því að óprúttnir aðilar hafa komið fyrir fölsuðum QR kóðum á nokkrum...