Svar Orkubús Vestfjarða við ályktun bæjarráðs Vesturbyggðar 16.12.2014

26. janúar 2015

Ályktun bæjarráðs Vesturbyggðar hljóðar svo:

„Í ljósi langvarandi og alvarlegs rafmagnsleysis í dreifbýli Vesturbyggðar undanfarna daga og vikur óskar bæjarráð Vesturbyggðar eftir upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða um ástæður seinagangs á viðgerðum á viðkomandi stöðum. Ljóst er að fjölmörg fyrirtæki og bú hafa orðið fyrir tjóni vegna langvarandi rafmagnsleysis. Bæjarráð kallar eftir skýringum og viðbragðsáætlun af hálfu fyrirtækisins. Sömuleiðis hvernig raforkukaupendunum verði bætt tjónið.“

Loftlínur á Vestfjörðum eru ávallt í hættu þegar fárviðri ganga yfir. Mánudagskvöldið 8. desember gekk mjög hvass vindur með úrkomu og ísingu yfir sunnanverða Vestfirði og olli víðtækum skemmdum á línukerfi OV og þriðjudagskvöldið 9. desember gekk síðan eitt mesta hvassviðri sem ég man eftir yfir Vestfirði. Vinnuflokkur OV á Patreksfirði var fáliðaður þar sem nokkuð var um veikindaforföll og 2 voru utan svæðis í fríi. Þegar umfang bilana varð ljóst var kallað eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu og kom sú aðstoð að góðu gagni. Kallað var eftir aðstoð fjögurra línumanna utan OV (2 frá Rafal og 2 frá Landsneti) og mættu þeir á svæðið um leið og fært var orðið, einnig kom línuflokkur frá Hólmavík til aðstoðar. Þess má geta að frá kvöldi mánudagsins 8. desember og fram á miðjan miðvikudag 10. desember er Kleifaheiði  skráð lokuð í amk. 35 klukkustundir skv. gögnum Vegagerðarinnar. Í ljósi aðstæðna hafnar OV að um seinagang hafi verið að ræða og telur að starfsmenn fyrirtækisins og aðrir þeir er komu til aðstoðar hafi lagt sig alla fram um að vinna að viðgerðum og eiga þeir þakkir skyldar fyrir framlag sitt.

Viðbragðsáætlun er sú að það er  einn maður er á bakvakt allan sólarhringinn og kallar hann út aðstoð eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni.

Orkubú Vestfjarða harmar að viðskiptavinir fyrirtækisins verði fyrir fjárhagslegu tjóni þegar straumrof verður. Orkubú Vestfjarða er með ábyrðartryggingu hjá Sjóvá  sem bætir þriðja aðila tjón sem OV er ábyrgt fyrir. Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni geta fyllt út tjónablað hjá sínu tryggingarfélagi.  Allar bótakröfur eru teknar til skoðunar en almenna reglan er sú að ef rekja má tjónið til veðurs eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna en ekki til sérstakra mistaka eða sinnuleysis starfsmanna þá er OV ekki bótaskylt.

Að lokum vill OV upplýsa bæjarráð Vesturbyggðar um að á undanförnum árum hefur verið unnið að endurnýjun Barðastrandarlínu þannig að að mestu verði þrífasa jarðstrengur milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar. Nú er jarðstrengur kominn að Krossholti en eftir að ganga frá tengingum og hafa um 200 milljónir króna verið settar í þetta verkefni á síðustu árum. Í drögum að framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir um 100 milljónum króna í verkefnið og að strengurinn komist að Brjánslæk.

 

Ísafirði 23. janúar 2015

Kristján Haraldsson
orkubússtjóri

01. desember 2022

Að virkja og vernda loftslag – hvar á að virkja ?

Orkuskiptin kalla á vangaveltur um hvort þörf sé á nýjum virkjunum.  Ef útrýma á jarðefnaeldsneyti...

28. nóvember 2022

Þrjár nýjar hleðslustöðvar

Nú hafa verið teknar í notkun þrjár nýjar hleðslustöðvar hjá Orkubúi Vestfjarða, tvær á Hvítanesi...

14. nóvember 2022

Ný kynslóð af raforkumælum í Súðavík

Árið 2005 hóf Orkubúið innleiðingu á snjallmælum fyrst veitna.