Framvindan í orkumálum Vestfirðinga og staðan í dag

14. janúar 2015

Inngangur
Nú um þessi áramót ber hæst mögulega stækkun Mjólkárvirkjunar með veitu úr Stóra Eyjavatni og stöðu leyfisveitinga vegna umsóknar Orkubús Vestfirðinga á nýtingu vatnsins.  Öðrum virkjunarkostum er aðeins getið í skýrslu þessari og flett inní umfjöllunina.  Hér verður ekki fjallað um virkjunarframkvæmdir sem nú er unnið að eins og Fossárvirkjun í Engidal og endurnýjun Mjólká I. 

Sjónum er beint að afleiðingum óstöðugleika sem komin er upp í meginflutningskerfi raforku, þ.e. byggðalínuhringnum, sem á síðustu árum hefur leitt til truflana og skerðinga í rafmagnsmálum Vestfirðinga og koma til viðbótar slöku afhendingaröryggi innan fjórðungsins. Lítið orkusjálfstæði fjórðungsins er því að verða mikið áhyggjuefni og þeim þætti gerð skil.

Staðan í dag í skipulagsmálum, „Stóra Eyjavant – Vatnaflutningar“
Síðastliðið sumar sótti Orkubúið  um að koma veitu úr Stóra Eyjavatni á vatnasviði Dynjandisár inn í breytingarferli á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Eingöngu var sótt um orkunýtingu sem er leyfð er samkvæmt núgildandi friðlýsingu Dynjanda.  Sjá vef Umhverfisstofnunar:  http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/vestfirdir/dynjandi-i-arnarfirdi/

Nú þegar hefur Ísafjarðarbær kynnt svokallaða „Skipulags- og matslýsingu“ frá október 2014 og samkvæmt tímaáætlun aðalskipulagsbreytingarinnar, er reiknað með að auglýsingin komist í loftið í apríl  á þessu ári.  Ef þetta gengur eftir, þá gefst almenningi tækifæri á að gera athugsemdir við Stóra Eyjavatnsveituna sem og aðrar framkvæmdir sem kynntar verða á sama tíma. http://www.isafjordur.is/skipulagsskrar/skra/850.

Tekið skal fram að veita úr Stóra Eyjavatni hefur verið hluti af mörgum virkjunarkostum eftir að Dynjandi varð friðlýstur en enginn þeirra orðið að veruleika.  Orkuverð sem Landsvirkjun bauð á þessum árum var í öllum tilvikum hagstæðari en að virkja heima í héraði. 

Síðasti kosturinn á undan núverandi umsókn er Glámuvirkjun, sem nú hefur verið hætt við og var veita úr Stóra Eyjavatni hluti af henni.  Verkefnisstjórn „Rammaáætlun 2“ flokkaði virkjunina í „Biðflokk“ og eftir það tók Alþingi alla virkjunarkosti úr áætluninni til afgreiðslu og á það við um alla kostina sem lentu í nýtingar- bið- og verndarflokk.  Hluti af ferlinu var að kalla eftir athugasemdum frá almenningi, félagsamtökum og stofnunum.  Sjá athugsemdirnar hér:  http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=140&mnr=727.

Vonir standa til að kynning og skipulagsmeðferð Ísafjarðarbæjar veki meiri eftirtekt heldur en auglýsingarferli Alþingis gerði árið 2012 þar sem lítið var um athugsemdir, sem gefur vísbendingu um að eitthvað hafi vatnað uppá kynninguna.  Fagaðilar, ef svo mætti kalla, gerðu ekki athugsemdir við Glámuvirkjun, eins og Náttúruverndarsamtök Íslands,  samtök ferðaþjónustunnar eða Landvernd.  Sömu aðilar gerðu athugasemdir við marga aðra virkjunarkosti sem settir voru í biðflokk og vildu að viðkomandi kostir yrðu settir í verndarflokk.

Þótt ofangreind samtök gerðu ekki athugsemdir við nýtingu Stór Eyjavatns, þá verður það að viðurkennast að Glámuvirkjun er trúlega flóknasta vatnsaflsvirkjun á landinu sem kynnt hefur verið fram að þessu og almenningur kannski ekki gert sér grein fyrir framkvæmdinni þannig að hún hefði áhrif á rennsli til fossana í Dynjandisánni.  Eftir að veitan komst inní umræðuna s.l. sumar og hlaut umfjöllun í fjölmiðlum, má velta upp þeirri spurningu hvort Stóra Eyjavatnsveita hafi farið framhjá fleirum sem annars hefðu viljað gera athugasemdir við umrædda orkunýtingu.  Nú er framkvæmdin afmörkuð við veituna eina og sér og að auglýsingartímabilinu loknu kemur í ljós hver staðan er.

Frekari leyfisumsóknir og samráð
Staðfest aðalskipulag verður að liggja fyrir áður en næstu skref verða tekin.  Samkvæmt tímaáætlun aðalskipulagsbreytingarinnar hjá Ísafjarðarbæ gæti samþykkt aðalskipulagsins legið fyrir í júlí 2015.  Þá er fyrst hægt að stíga næsta skref sem er samráð við Umhverfisstofnun um nánari útfærslu miðlunar í Stóra Eyjavatni og afköst veitunnar.  Þetta samráð er skilyrt í friðlýsingarskilmálunum.

Það eru því mörg „ef“ sem á eftir að fá svar við áður en endanleg hönnun og deiliskipulags vinnan getur hafist.  Báðir þessir þættir eru mjög kostnaðarsamir.  Af skiljanlegum ástæðum vill Orkubúið ekki ráðstafa miklum fjármunum og mannafla í að vinna hluti sem verða kannski aldrei að veruleika. 

201501-3-1.jpg

Mynd.  Horft til vesturs út Arnarfjörðinn.  Til vinstri er Tangavatn sem er í 570 m y.s. líkt og Stóra Eyjavatn og er landslagið svipað á báðum stöðum. Til hægri er Hólmavatn og Langavatn sem er inntaksmannvirki Mjólká II þar sem veitan frá Stóra Eyjavatni kemur til með að enda.

Nánar um framkvæmdina.
Landslag á Vestfjörðum hentar illa til vatnsmiðlanaframkvæmda og er nánast eina leiðin að nýta náttúruleg vötn.  Allt rask og stíflugerð við Stóra Eyjavatn yrði í lágmarki og ekki kemur til að sökkva grónu landi sem hlýtur að teljast mjög umhverfisvænt.  Stóra Eyjavatn er stærsta stöðuvatnið á Glámuhálendinu og mun miðlunaraukningin fjórfalda núverandi miðlun Mjólkármegin.

Innrennslið í vatnið á ársgrundvelli er um 21 Gl, eða meðalrennsli 0,67 m3/s.  Til samanburðar er hámarks vatnsnotkun Tungudalsvirkjunar 0,7 m3/s, ný vél í Fossárvirkjunar 0,45 m3/s  og vatnanotkun Mjólká III, sem er minnsta vélin, notar 1,4 m3/s.  Afrennsli ofan vatnsins er það minnsta sem þekkt er af Glámuhálendinu í þetta mikilli hæð, enda er verið að sækjast í þessa náttúrulegu miðlun, ekki rennsli.

Það má því segja að ef vatnið hefði tilheyrt öðrum firði, þá hefði miðlunin, vegna stærðar sinnar, alltaf verið jafn álitleg.  Skerðing til fossana er 22 % á ársgrundvelli.  Afköst veitunnar er áætlað 1,7 m3/s, þvermál pípu 80 cm og lengd 6,3 km.  Sambærileg pípa er fyrir Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði, nema lengdin þar er 1,1 km.  Pípa Fossárvirkjunar sem nú er verið að framkvæma er með 50 cm þvermál.

Heppileg staðsetning gagnvart flutningskerfi Landsnets og fljót unnin aflaukning
Hvað Landsnet varðar, þá er ekki hægt að hugsa betri staðsetningu á aflaukningu til skamms tíma litið en í Mjólká.  Bilanagjarnasta 132 kV lína Landsnets liggur frá Geiradal í Mjólká og bilanagjarnasta 66 kV línan fyrirtækisins liggur frá Mjólká til Tálknafjarðar.  Landsnet kynnti áform um 5 MW  eldsneytisstöð á suðursvæði Vestfjarða um það leiti og ákvörðun var tekin um 10 MW eldsneytisstöð í Bolungarvík. 

Mynd 3.4 er úr „Kerfisáætlun 2014-2023“  http://www.landsnet.is/landsnet/upplysingatorg/skyrslur/

201501-3-2.png

Stækkun Mjólkár og hringtenging þaðan til suðursvæðisins er mun betri kostur og umhverfisvænni, því þetta tvennt gerir eldsneytisstöðina á suðursvæði Vestfjarða óþarfa.  Þegar talað er um 5 MW eldsneytisstöð, þá byggist það mat á núverandi notkun.  Atvinnutækifærum og íbúum fer þar fjölgandi og mun koma fram í auknu álagi.  Mögulega þyrfti að endurskoða þessa stærð og ef þörf yrði fyrir meiri varaafl, þá er það enn áhugaverðara að horfa til stækkunar Mjólkár ásamt hringtenginu flutningskerfisins.

Veita úr Stóra Eyjavatni til Mjólkár er fljótunnin og hægt að framkvæma á einu til tveimur sumrum.  Ef öll leyfi fást, þá gætu framkvæmdir hafist 2016.  Framleiðsluaukning vegna hennar, að helmingshlut í núverandi virkjun og hinn helmingurinn í nýjum vélum sem gerir 25 GWh á tímabilinu 1 október til aprílloka þegar mest þörf er fyrir orkuna.

Aðrir virkjunarkostir á svæðinu
Einhverjar bændavirkjanir eru á teikniborðinu og til marks um það, þá er sótt um að koma inná aðalskipulag Ísafjarðarbæjar þremur slíkum í Önundarfirði samtals að afli 1,8 MW.  Fleiri smávirkjanir hafa komið upp í umræðunni, rennslismælingar viðhafðar, en skipulagsferlið ekki hafið hjá viðkomandi sveitarfélagi og ekki tímabært að fjalla um nú.

Sótt hefur verið um af einkaaðila að koma vindhverflum, allt að 2 MW inná aðalskipulag Ísafjarðarbæjar  Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort miklar athugasemdir koma fram í væntanlegu auglýsingarferli og út á hvað athugsemdirnar ganga.  Orkubúið hefur einungis viðhaft vindmælingar á tveimur stöðum á Vestfjörðum enn sem komið er og ekki tekið aðrar ákvarðanir gagnvart þeirri auðlind sem vindurinn er.

50 MW Hvalárvirkjun, sem er langstærsti virkjunarkosturinn á Vestfjörðum, er einnig í vinnslu.  Nauðsynlegar rannsóknir, gerð umhverfismats o.þ.h. gæti verðið lokið, ef vel gengur, í árslok 2016 og þá fyrst er tímabært að taka afstöðu til tímasetningar á framkvæmdum samkvæmt heimildum á heimasíðu eigenda http://vesturverk.is/?cat=159&pageid=660   Hvort heldur aukin framleiðsla í vatnsaflsvirkjunum komi frá einkaaðilum eða Orkubúinu, þá mun slík aukning alltaf hafa sömu jákvæðu áhrifin, þ.e. auka orkusjálfstæði fjórðungsins.

Stöðuleiki byggðalínuhringsins og flöskuhálsar er löngu orðin óásættanlegur
Landsnet gefur út ár hvert skýrsluna  „Orku- og afljöfnuð“. http://landsnet.is/raforkukerfid/flutningskerfilandsnets/throunflutningskerfisins/afl-ogorkujofnudur/ Í kafla 1.1, niðurstöður, kemur fram svart á hvítu að byggðalínuhringurinn er sprunginn.  M.a. kemur fram að álag hefur aukist í íslenska raforkukerfinu án teljandi fjárfestinga og vandmál vegna flöskuhálsa eru líkleg til að aukast.  Einnig að léleg vatnsár eru mjög líkleg til að valda talsverðum röskunum.

Orkubúið hefur nú þegar orðið fyrir skerðingu út af slíkum flöskuhálsum.  Landsvirkjun gat ekki komið orkunni sem til var á austurlandi til sinna viðskiptavina vestanlands þegar bilun varð í einni virkjun á Þjórsársvæðinu, nánar tiltekið í Búrfellsvirkjun í desember sama ár og skýrslan er samin. Var það vegna bilunar í öðrum af tveim megin 220 kV jarðstrengnum frá virkjuninni uppá kerfi Landsnets þannig að afl virkjunarinnar helmingaðist.

Fram að þessu hefur áherslan verið að auka vægi vatnsaflvirkjana heima í héraði og um leið minnka þörfina á díselkeyrslu í bilanatilvikum í flutningskerfi raforkunnar.  Um er að ræða 1 til 2 GWh í venjulegu árferði.  Í mars og apríl 2014 kom til skerðingar vegna þurrðar í lónum Landsvirkjunar á vestanverðu landinu, sem á ekki að gerast nema á 15 ára fresti.  Betri vatnsstaða var fyrir austan, en flöskuhálsar í flutningskerfinu takmörku orkuflutning milli landshluta og skerðing hjá Orkubúinu var meiri en annars þurfti að vera.

Nú er þetta ekki einungis spurning um slakt afhendingaröryggi innan fjórðungsins, heldur einnig utan.  Þetta er ný staða og vitandi það að Landsvirkjun hefur viljað koma þessu svokallaða ótrygga rafmagni á uppboðsmarkað, þá er ekki ljóst hvernig Orkubú Vestfjarða bregst við til lengri tíma litið.  Á meðan ekki koma nýir vinnslukostir á Vestfjörðum, þá verður það hlutskipti Vestfirðinga að álagsþróunin verði eins og Landsnet áætlar í sinni kerfisáætlun. 

201501-3-3.png

Engin ný lína hjá Landsneti er komin á framkvæmdastig sem mun koma í veg fyrir skerðingar sem nefndar voru hér á undan og ef eitthvað er, þá er álag að aukast á kerfinu vegna nýrra notenda og má búast við að tilvikum sem þessum fjölgi.

Þessar tvær skerðingar leiddu til olíukaupa að upphæð 232 Mkr og er sú upphæð  ¼ hluti af stofnkostnaði veitu úr Stóra Eyjavatni svo dæmi sé tekið.  Í magni er verið að tala um 11 GWh og að viðbættu díselvélakeyrslunni vegna línubilana, samtals 12 til 13 GWh.  Annað dæmi er ef vatn frá Stóra Eyjavatni yrði einungis nýtt í bilanatilvikum og skerðingum eins og þær voru s.l.vetur, þá hefði þurft helming af orkuvinnslugetu Stóra Eyjavatnsmiðlunar og það hefði sparað 1.471.000 lítra af olíu.  Þetta eru 208 lítrar á hvern Vestfirðing.  Það munar um minna.

Nánar um Orkusjálfstæði á Vestfjörðum.
Fjórðungurinn háður innflutningi í allt að 60 % af orkuþörf á raforkumarkaðnum eins og hann var 2013, eða 233 GWh.  Ekki er hentugt að nota 2014 sem viðmiðunarár vegna ofangreindra skerðinga á rafmagni og mikillar olíunotkunar það ár. Jarðhiti til húshitunar og olíunotkun véla og katla vegna varaaflskeyrslu í bilunartilvikum er ekki meðtalinn.

Stærsti hlutinn af innflutningnum er svokallað ótryggt rafmagn á katla rafkynntu hitaveitnanna, eða 84 GWh.  Til að minnka vægi innflutnings vegna húshitunar, er frekari leit að jarðhita vænlegast, einangra hús betur og innleiðingu á varmadælum í kyndistöðvar, reynist það hagkvæmt.

Innflutningur af annarri raforku sem kallast forgangsorka er 50 GWh sem hefur farið minnkandi vegna aukinnar framleiðslu Orkubúsins og minni virkjana, svokallaðra bændavirkjana, á undanförnum árum. Á sama tíma hefur notkunin staðið í stað þrátt fyrir fólksfækkun í fjórðungnum.  Bæði vegna þess að almenn notkun á hvern íbúa hefur aukist og iðnfyrirtæki hafa verið að skipta úr olíu eða gasi eins og Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal, yfir í rafmagn. 

Vestfirðir í sókn og nýr markaður
Nú er viðsnúningur í íbúaþróun á suðursvæði Vestfjarða og hefur íbúum þar farið fjölgandi í kjölfar aukinna atvinnutækifæra. Má það einkum rekja til vaxandi sjókvíaeldis.  Talað er um 50 þúsund tonn + fyrir allt svæðið. Samsvarar þetta 10 skuttogurum í veiðigetu.  Ekki er vitað hvað þessi breyting á suðursvæði Vestfjarða kallar á mikla aukningu í rafmagnsþörf.  Þó liggur fyrir að einn vinnsluaðili hefur hug á að frysta lax í bitum sem krefst 1,1 MW í raforku.

Áform er um nýja Kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, þrífösun á rafmagni til Brjánslækjar á Barðaströnd sem gerir fiskþurrkunarfyrirtækinu þar á svæðinu kleift að hverfa frá olíu og skipta yfir í rafmagn svo eitthvað sé nefnt.

Meiri líkur en minni eru á því að rafmagnsnotkunin á Vestfjörðum verði meiri en verið hefur strax á árinu 2016.  Skynsamlegt er því að halda áfram að stuðla að eflingu orkuframleiðslu innan fjórðungsins eins og kostur er.  Ef ekki þá munu neikvæð umhverfisáhrif á loftlagsbreytingar aukast með meiri olíunotkun í bilanatilvikum en annars þyrfti fyrir utan kostnaðinn og gjaldeyrisþörfina.

Niðurlag.
Stóra Eyjavatn er stærsti kosturinn sem er nógu hagkvæmur til að framkvæmdir geti farið af stað m.v. orkuverð til virkjana í dag.  Munar þar mestu um stækkun Mjólkárvirkjunar 2010 og 2011, þá er meira „pláss“ fyrir aukið vatn á vetrartímabilinu.  Á árunum 2012 til 2014 var orkuframleiðsla á vetrartímabilinu aðeins 50 % af afli vélanna að meðaltali.   Í rauninni eru þá 6 MW laus í núverandi vélum, en þá er að vísu ekkert afl til reiðu til álagsbreytinga.

Nýting véla í Mjólká er aðeins minni en líkön sögðu til um og vonandi er þetta ekki varanleg breyting á veðurfari frekar en vatnsþurrðin hjá Landsvirkjun veturinn 2013 til 2014.  En verði það raunin, þá eykst hagkvæmni veitu frá Stóra Eyjavatni enn frekar vegna fjárbindingar sem komin er í Mjólká.  Stóra Eyjavatn er eins og áður sagði fyrst og fremst miðlun, þ.e. geyma vorflóðin og snjóbráðnunina og nýta frá október til apríl ár hvert Mjólkár megin.

Að lokum má nefna að 95 % landsmanna búa við jarðhitaveitu til upphitunnar íbúðarhúsnæðis og það kemur aldrei til að þeir notendur komi til með að nota olíu til upphitunar í einhverjum bilanatilvikum.  Íbúar á köldum svæðum eru mis vel staðsettir hvað varðar afhendingaröryggi á raforku og orkunotkun á viðkomandi svæði réttlætir ekki tvöföldun á flutningskerfinu til þeirra enn sem komið er.  Með því að ýta undir vistvæna orkuvinnslu, þá kemur það í veg fyrir eða minnkar olíuaustur í bilatilvikum.

Að lokum mætti nefna mögulegar hamfarir tengt Bárðarbungueldstöðinni, sem nú er í umræðunni, hvort heldur á virkjunum á Tungnár-  Þjórsársvæðinu eða byggðalínuhringnum. Þar er áhætta sem þarf að minnka með því að efla vinnsluna heimafyrir.  Annað er óábyrgt.

Orkusvið
Sölvi R Sólbergsson

01. desember 2022

Að virkja og vernda loftslag – hvar á að virkja ?

Orkuskiptin kalla á vangaveltur um hvort þörf sé á nýjum virkjunum.  Ef útrýma á jarðefnaeldsneyti...

28. nóvember 2022

Þrjár nýjar hleðslustöðvar

Nú hafa verið teknar í notkun þrjár nýjar hleðslustöðvar hjá Orkubúi Vestfjarða, tvær á Hvítanesi...

14. nóvember 2022

Ný kynslóð af raforkumælum í Súðavík

Árið 2005 hóf Orkubúið innleiðingu á snjallmælum fyrst veitna.