Ný kynslóð sölumæla og mælaskipti vegna úrtaksprófana

23. nóvember 2015

Orkubú Vestfjarða rekur viðamikið kerfi orkumæla sem nær til allra Vestfjarða. Á undanförnum árum hefur verið í gangi mikið átak við að skipta út eldri orkumælum í staðinn fyrir nýja kynslóð löggiltra mæla.

Gert er ráð fyrir að í lok þessa árs verði allir raforkumælar löggiltir af nýrri kynslóð mæla. Í árslok 2018 mun ljúka endurnýjun á varmaorkumælum.

Orkubúið rekur innra eftirlitskerfi með raforkumælum og varmaorkumælum samkvæmt heimild frá Neytendastofu. Eftirlitið fer þannig fram að mælum er skipað í söfn eftir árgerð og gerðarauðkenni og eftir ákveðinn tíma er tekið úrtak af mælum og þeir prófaðir. Standist mælar ekki úrtaksprófun þá er skipt um alla mæla í viðkomandi mælasafni. Orkubúið hefur verið leiðandi á þessu sviði á Íslandi og var fyrsta dreifiveitan til að fá heimild frá Neytendastofu til að reka innra eftirlitskerfi bæði fyrir  raforku-og  varmaorkumæla.

Reynt er að tengja sem flesta nýja orkumæla við radíókerfi Orkubúsins sem nær til flestra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum og stefnt er að því að  í árslok 2018 verði hægt að lesa af a.m.k. 75% af sölumælum á Vestfjörðum í radíókerfinu og öðrum í fjarálestri. Mikið hagræði er af þessu fyrir viðskiptavini þar sem árlegum heimsóknum álesara mun fækka til muna í náinni framtíð og meirihluti viðskiptavina mun eiga þess kost að fylgjast reglulega með orkunotkun sinni á fjarmælivef Orkubúsins.

Viðskiptavinum er bent á að þegar settur er upp nýr mælir þá getur liðið nokkur tími þar til hægt er að lesa af honum í fjarálestri. 

201511-2-1.jpg

Eldri og nýrri kynslóðir raforkumæla.

Margir viðskiptavinir hafa á undanförnum mánuðum orðið varir við starfsmenn Orkubúsins og verktaka á þess vegum að skipta um orkumæla. Nokkrir viðskiptavinir hafa spurt hvers vegna verið er að skipta út nýlegum mælum. Ástæðan fyrir því er að viðkomandi mælar hafa lent í mælaúrtaki og því ber Orkubúinu lögum samkvæmt að senda þá í prófun. Innri eftirlitskerfin eru rekin með hag neytenda að leiðarljósi og þó mælaskiptin, sem þeim tilheyra, geti valdið óþægindum hjá sumum  viðskiptavinum þá er það samt til hagsbóta fyrir alla viðskiptavini Orkubúsins.

Starfsmenn Orkubúsins og verktakar á þess vegum reyna eftir fremsta megni að framkvæma mælaskipti og mæla álestur í góðu samstarfi við viðskiptavini. Í sumum tilfellum hefur ekki verið hægt að ná sambandi við viðskiptavini og er þá reynt að banka upp á og athuga hvenær hægt er að framkvæma mælaskiptin eða lesa af mæli.

Orkubúið biður þá viðskiptavini, sem verða fyrir óþægindum vegna mælaskipta eða mæla álesturs og  telja að réttu verklagi hafi ekki verið fylgt, að hafa sambandþannig að hægt sé að bæta úr verklagi ef þörf krefur. Einnig eru viðskiptavinir beðnir um að taka vel á móti mælasetjurum og álesurum og veita þeim gott aðgengi að sölumælum.

Ýmsar gagnlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Orkubúsins m.a. álestraráætlun sölumæla. Einnig eru upplýsingar  birtar reglulega um mæla álestur og mælaskipti á facebook síðu Orkubúsins þar sem einnig er hægt að senda okkur ábendingar og skilaboð.

28. nóvember 2022

Þrjár nýjar hleðslustöðvar

Nú hafa verið teknar í notkun þrjár nýjar hleðslustöðvar hjá Orkubúi Vestfjarða, tvær á Hvítanesi...

14. nóvember 2022

Ný kynslóð af raforkumælum í Súðavík

Árið 2005 hóf Orkubúið innleiðingu á snjallmælum fyrst veitna.

03. nóvember 2022

Orkubú Vestfjarða velur e1 sem þjónustuaðila hleðslustöðva

Orkubú Vestfjarða og e1 hafa undirritað samstarfssamning varðandi umsjón og þjónustu fyrir allar...