Orkukostnaður heimila á köldum svæðum lækkar

05. janúar 2016

Breytingar á verðskrám OV og niðurgreiðslum ríkisins um áramót
Verðskrár OV fyrir flutning og dreifingu rafmagns hækka að meðaltali um tæp 4% í þéttbýli og tæp 8% í dreifbýli nú um áramótin. Reikningar heimila með rafhitun og kyntum hitaveitum lækka vegna aukinna niðurgreiðslna stjórnvalda. Verðskrá fyrir hitaveitur breytist ekki og verðskrá raforkusölu lækkar um 0,129 kr/kwh þar sem raforkuskattur fellur niður.

Nú um áramótin verða nokkrar breytingar á verðskrá OV fyrir flutning og dreifingu rafmagns og á niðurgreiðslum ríkisins til rafhitunar. Í dreifbýli hækkar verðskráin um tæp 8%, en í þéttbýli hækkar verðskráin um tæp 4% fyrir almenna notkun. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar hækka, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Jöfnunargjald á raforku hækkar, en dreifbýlisframlag helst óbreytt. Skattur á raforkusölu fellur niður. Breytingarnar hafa því mismikil áhrif á viðskiptavini fyrirtækisins, eftir því hvaða þjónustu þeir kaupa og ekki síður eftir því hvort um er að ræða viðskiptavini í þéttbýli eða dreifbýli.

Þéttbýli
Verðskrá flutnings og dreifingar raforku hjá OV í þéttbýli hækkar um 0,2 kr/kWst, en fastagjald er óbreytt. Þetta svarar til um 3,4% meðalhækkunar á verðskrá fyrir almenna notkun í. Hins vegar hækka taxtar fyrir ótryggða raforkudreifingu vegna hækkunar hjá Landsneti. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar í þéttbýli á veitusvæði OV hækka úr 4,02 kr/kWst í 4,70 kr/kWst. Þá fellur raforkuskattur 0,129 kr/kWh niður. Þannig lækkar t.d. árlegur orkukostnaður rafhitanotenda með 40.000 kWst ársnotkun um ca. 25.000.- kr.

Verðskrá hitaveitu breytist ekki en niðurgreiðslur til rafkyntra hitaveitna hækka úr 3,06 kr/kWst í 3,51 kr/kWst. Árlegur orkukostnaður hitaveitunotenda með 34.000 kWh hitaveitunotkun á ári og 6.000 kWh rafmagnsnotkun lækkar um ca. 23.500.- kr.

Dreifbýli
Verðskrá flutnings og dreifingar raforku hjá OV í dreifbýli hækkar um 0,7 kr/kWst, en fastagjald er óbreytt. Þetta svarar til um 7,4% meðalhækkunar á verðskrá fyrir almenna notkun í dreifbýli. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar í dreifbýli á veitusvæði OV hækka úr 5,40 kr/kWst í 6,51 kr/kWst. Þá fellur raforkuskattur 0,129 kr/kWh niður. Þannig lækkar t.d. árlegur orkukostnaður rafhitanotenda með 40.000 kWst ársnotkun um ca. 18.500.- kr.

Í framangreindum verðdæmum hefur verið tekið tilliti til dreifbýlisframlags og jöfnunargjalds.

Þjónustugjöld hækka um 4%.

Jöfnunargjald. Samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku nr. 98 frá 9. júní 2004, með síðari tíma breytingum, hækkar jöfnunargjald 1. janúar 2016. Jöfnunargjaldið hækkar úr 20 aurum í 30 aura á kWst ef undan eru skildir taxtar fyrir ótryggðan flutning, en jöfnunargjald á þá hækkar úr 6,6 aurum í 10 aura fyrir kWst.

Dreifbýlisframlag. Dreifbýlisframlag úr ríkissjóði sem fjármagnað er með jöfnunargjaldi helst óbreytt, 2,17 kr/kWh í dreifbýli.

Þann 1.apríl 2016 má búast við frekari jöfnun á verði raforkudreifingar í dreifbýli. Jafnframt er þess vænst að kostnaður við flutning og dreifingu raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði þá að fullu niðurgreiddur. Nú um áramót náðist sá áfangi að 90% þessa kostnaðar er niðurgreiddur.

13. maí 2021

Friðlýsingarskilmálar þjóðgarðs – þörf á upplýstri umræðu

Orkubú Vestfjarða (OV) hefur ritað sveitarfélögum á Vestfjörðum ásamt Vestfjarðastofu, bréf vegna...

30. mars 2021

Úthlutun samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða 2021

Alls bárust 78 umsóknir og að þessu sinni voru veittir 53 styrkir samtals að fjárhæð kr. 5.000.000.

25. febrúar 2021

Gengið verður til samninga um sölu á hlut Orkubúsins í Landsneti

Orkubú Vestfjarða hefur samþykkt viljayfirlýsingu um að hefja viðræður um sölu á 5,98% eignarhlut...