Framkvæmdir í Mjólkárvirkjun við Mjólká IA, sem hófust s.l. haust, eru vel á veg komnar. Gert er ráð fyrir að ný 3 MW vél taki í ágúst á þessu ári við af eldri vél sem var tekinn í rekstur árið 1958 og getur framleitt 2,4 MW. Uppsetning á nýju vélinni truflar ekki framleiðslu á þeirri gömlu nema rétt í lokin þegar pípan verður aftengd við þá gömlu og endurtengd við þá nýju.
Í þessari viku er verktakinn, Geirnaglinn ehf, Hnífsdal, sem vinnur alla byggingarvinnu í verkinu, að ljúka við sögun á gömlum undirstöðum, sem ekki verða nýttar fyrir nýju vélina. Veggir í kjallara stöðvarhússins eru ansi þykkir og til verksins var keypt sérstök sögunarvél frá Svíþjóð og er hún sú eina sinnar tegundar á landinu að því er best er vitað.
Sögunin fer þannig fram að mjór þráður er leiddur umhverfis steypuna, sem á að saga, og vélin drífur og strekkir þráðinn jafn óðum. Stærð steypuklumpa, sem á að saga, geta verið mjög stórir, en það er frekar þyngdin sem takmarkar stærð klumpsins. Þar sem sögun fer fram innan dyra getur verið heilmikið mál að koma þeim út úr húsi ef þeir eru of þungir.
Neðri myndin sýnir sárið, sem myndaðist eftir sögunina, og er 1.170 mm breitt. Allskonar stál inni steypunni olli erfiðleikum en stoppaði ekki sögunina.
Orkusvið 25. maí 2016
Sölvi R Sólbergsson