Umræðan um orkumál á Vestfjörðum hefur sjaldan verið meiri en undanfarin misseri, nema ef vera skyldi á árunum í kringum stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir 40 árum. Orkubúið hefur þá sérstöðu á meðal orkufyrirtækja á Íslandi að vera bæði í hlutverki dreifingarfyrirtækis, og orkusölu- og framleiðslufyrirtækis. Þessi sérstaða hefur bæði kosti og galla. Kostirnir felast ekki síst í samnýtingu á mannskap fyrir veituna og framleiðsluna. Kostnaðarskiptingin lýtur þó ákveðnum reglum og er undir eftirliti opinberra aðila.
5 - 9% lægra söluverð á raforku hjá Orkubúinu
Ókosturinn birtist í því að erfitt er að koma því vel til skila að Orkbú Vestfjarða, þ.e. söluhlutinn er með lægsta verð á raforku til neytenda og hefur verið með eitt lægsta verðið í mörg ár. Af þessum sökum er það lang hagstæðast fyrir almenna neytendur á Vestfjörðum að eiga raforkuviðskipti sín við Orkubúið. Það er reyndar líka hagstæðast fyrir alla aðra almenna neytendur á Íslandi. Munurinn á útgjöldum hjá heimili sem kaupir 40 þús kWst á ári nemur þannig allt að 20 þúsund krónum yfir árið sé miðað við að heimilið væri að öðrum kosti í viðskiptum við stórt orkusölufyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu. Fjöldi kWst er hér miðaður við heimili sem er með rafhitun.
Núna er verð á raforku til almennra neytenda t.d. 5 til 9 % hærra hjá stærstu orkusölufyrirtækjunum en hjá Orkubúi Vestfjarða. Vegna smæðar markaðarins og mikilla vegalengda á Vestfjörðum m.v. fólksfjölda verður dreifingin óneitanlega ekki jafn hagkvæm og í þéttbýlinu á suðvesturhorninu svo dæmi sé tekið og Orkubúið á því erfiðara með að vera með lægsta verð á dreifingu raforku.
Stefnan í orkusölu hefur verið í samræmi við þá stefnu sem sveitarfélögin á Vestfjörðum gerðu að meginstefi við stofnun Orkubúsins, nefnilega samkeppnishæft verð.
Stefnan er aukið orkuöryggi
Á sínum tíma bar Orkubú Vestfjarða ábyrgð á flutningslínum á Vestfjörðum. Í dag er það Landsnet sem á línurnar sem eru hluti flutningskerfis raforku á Íslandi. Landsnet á þannig línur og strengi á Vestfjörðum allt frá Gilsfirði til Bolungarvíkur í norðri og í Tálknafjarðarbotn í suðri. Orkubú Vestfjarða á svo minni línur og strengi sem notaðir eru til dreifingar á raforku. Orkuöryggi á Vestfjörðum verður því alltaf samofið afhendingarörygginu hjá þessum tveimur fyrirtækjum.
Miklir fjármunir hafa verið settir í að skipta út loftlínum Orkubúsins fyrir jarðstrengi allt frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur og áfram út Ísafjarðardjúp auk jarðstrengjavæðingar á Barðaströnd og víðar. Þeir fjármunir sem settir eru í slíkar framkvæmdir hafa alla jafnan ekki í för með sér aukningu á tekjum og eru því íþyngjandi fyrir reksturinn a.m.k. í byrjun. Jarðstrengjavæðing leiðir samt vonandi til lækkunar á viðgerða- og viðhaldskostnaði til lengri tíma litið auk þess að bæta þjónustuna við viðskiptavini þar sem í leiðinni er notað tækifæri til þrífösunar. Stefna Orkubúsins að auka orkuöryggi er þannig alveg skýr. Aukið orkuöryggi hefur hinsvegar óhjákvæmilega í för með sér hærra verð á dreifingunni vegna þess að mæta þarf afskriftum og greiða niður fjárfestinguna. Orkubúið á mikil samskipti við Landsnet þar sem hvert tækifæri er notað til að koma á framfæri sjónarmiðum Vestfirðiniga varðandi styrkingu raforkukerfisins, auk þess sem það er gert með formlegum hætti í umsögnum um kerfisáætlun Landsnets.
Smávirkjanir
Virkjun Úlfsár í Skutulsfirði hefur verið til umræðu að undanförnu og því jafnvel haldið fram að Orkubúi Vestfjarða standi í vegi fyrir virkjuninni. Slíkar fullyrðingar eiga sér nákvæmlega enga stoð í veruleikanum. Þvert á móti þá hefur Orkubúið boðist til að koma að samningi við virkunaraðila til að af virkjuninni megi verða. Ekki má rugla því saman við þá staðreynd að Orkubúið getur ekki látið það afskiptalaust að sveitarfélag hyggist nú leigja vatnsréttindi, sem það lagði inn í Orkubúið sem stofnfé, til þriðja aðila.
Þess má geta að 0,2 MW virkjun Úlfsár hefur í sjálfu sér ekki mikil áhrif í heildarsamhenginu, en gera má ráð fyrir að framleiðsla virkjunarinnar verði um 0,25 prósent af raforkunotkun á Vestfjörðum. Það þyrfti því líklega 400 slíkar virkjanir til að anna núverandi raforkunotkun á Vestfjörðum.
Hraðhleðslustöðvar
Uppbygging hraðhleðslustöðva við þjóðvegi á Íslandi er mikið framfaramál. Það er mat kunnugra að þéttleiki nets slíkra hraðhleðslustöðva þurfi að vera þannig að ekki séu meira en 80 til 100 km á milli stöðva og er þá verið að taka tillit til langdrægni rafbíla í dag. Það er óraunhæft að fara um landið á þeim rafbílum sem standa til boða í dag án þess að eiga kost á hraðhleðslu. Orkubúið hefur tekið ákvörðun um að einbeita sér að sínu veitusvæði hvað þetta varðar. Rétt er að hafa í huga að jafnvel þótt búið væri að setja upp net hraðhleðslustöðva núna þá væri vegalengdin í hraðhleðslutöð frá Vestfjörðum á leið til Reykjavíkur, 140 km frá Bjarkalundi og 160 km frá Hólmavík. Þetta mun þó gjörbreytast með tilkomu hraðhleðslustöðvar sem væntanleg er í Búðardal í sumar. Ég tel þvi að tímasetning Orkubúsins á uppsetningu hraðhleðslustöðva hafi verið skynsamleg. Reyndar stóð til að ljúka uppsetningu tveggja stöðvi sl. haust, en af óviðráðanlegum orsökum tókst það ekki m.a. vegna óhapps sem varð í flutningi stöðvanna. Orkubúið mun hefja uppsetningu á fyrstu hraðhleðslustöðvunum á Hólmavík og Patreksfirði á næstu vikum, en mun jafnframt kynna frekari áform um uppsetningu hleðslustöðva innan tíðar.
Stakkaskipti ?
Tilefni þessarar greinar eru skrif „Stakks“ á dögunum um aðkomu Orkubús Vestfjarða að orkumálum á Vestjförðum. Mér þótti örla á sleggjudómum í greininni og í einhverjum tilfellum rangfærslum, sem eru ekki það innlegg sem umræðan þarfnast helst núna. Mér hefur reyndar þótt umræðan um orkumál á Vestfjörðum vera lituð af stórum fullyrðingum og jafnvel ásökunum, sem ekki hafa alltaf átt við rök að styðjast. Þannig má umræðan sjálf gjarnan taka stakkaskiptum og byggja meira á traustum rökum. Slík umræða er ávallt af hinu góða og henni ber að fagna. Orkubúið vill að sjálfsögðu vera þátttakandi í umræðu um orkumál.
Ég spyr samt hvort ekki sé tímabært „að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan“, eins og skáldið sagði forðum. Það gæti að mínum dómi orðið til verulegra bóta.
Elías Jónatansson, orkubússtjóri