7. Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. 2. maí 2008
Skýrsla Orkubússtjóra
Kristjáns Haraldssonar
Fundarstjóri, fulltrúar hluthafa og aðrir fundarmenn, verið öll velkomin til
7. aðalfundar Orkubús Vestfjarða ohf.
Í árslok 2007 voru liðin 30 ár frá því að Orkubú Vestfjarða tók til starfa.
Markmiðin með stofnun Orkubús Vestfjarða voru þríþætt, í fyrsta lagi að stórauka framboð innlendrar orku á Vestfjörðum, í öðru lagi að lækka orkuverð á veitusvæðinu og síðast en ekki síst að flytja forræðið í þessum mikilvæga málaflokki heim í fjórðunginn ásamt þeim störfum sem honum tengdust.
Þegar litið er til baka verður ekki annað séð en vel hafi tekist að uppfylla þessi markmið.
Á fyrsta starfsári sínu seldi Orkubú Vestfjarða orku sem nam um 55 GWh en á s.l. ári varð heildarorkusalan um 219 GWh, sem jafngildir tæplega 300% aukningu.
Á starfstíma Orkubúsins hefur orkuverð á Vestfjörðum lækkað að raunvirði og er nú svo komið að verð samkvæmt almennum taxta er rúm 40% af því sem það var þegar Orkubúið hóf starfsemi sína. Stjórn Orkubús Vestfjarða hefur frá upphafi haft það að stefnumiði að halda orkuverði á Vestfjörðum eins lágu og nokkur kostur er og því ekki gert kröfu um að fyrirtækið skilaði hagnaði og arði til eignaraðila. Þessi stefna hefur leitt til þess að gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hafa verið með þeim lægstu í landinu.
Árið 2007 var frekar gott ár fyrir rekstur Orkubús Vestfjarða og varð hagnaður af venjubundnum rekstri þriðja árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins hefur aldrei verið meiri á einu ári og ekki urðu nein stærri rekstraráföll í flutningskerfum Orkubúsins Þó verður ekki hjá því komist að geta tíðra bilana á flutningskerfi Landsnets, sem ollu raforkunotendum á veitusvæði Orkubúsins fjölmörgum truflunum. Landsnet vinnur nú að endurbótum á flutningskerfi sínu í samstarfi við Orkubúið.
Á árinu 2007 var 185,8 Mkr. varið til fjárfestinga, þar af voru tengigjöld og vinna greidd af öðrum 18,4 Mkr.. Lokið var við byggingu á nýju verkstæðishúsi á Hólmavík og rofahúsi á Reykhólum. Lagður var jarðstrengur frá aðveitustöð Súðavík í gamla þorpið og háspennulína aflögð, einnig var við fyrsta áfanga spennuhækkunar Bíldudalslínu úr 33 kV í 66 kV.
Þá var rafskautsketill í kyndistöðinni á Suðureyri endurnýjaður með nýjum 1,2 MW túpukatli og unnið var að endurnýjun á fjargæslubúnaði fyrirtækisins. Af öðrum framkvæmdum má nefna endurbætur á dreifikerfi raforku í þéttbýli, stækkun dreifikerfis hitaveitu og endurbyggingu ýmissa aðveitulína. Allar fjárfestingar voru kostaðar af eigin fé fyrirtækisins eða greiddar af þeim sem þeirra óskuðu.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að fjárfestingar kostaðar af Orkubúinu verði mun meiri. Til almennra verkefna verður varið185 Mkr. og síðan eru tvö stórverkefni að auki, tenging raforkukerfis Ísafjarðardjúps við landskerfið (120 Mkr) og borun vinnsluholu fyrir heitt vatn í Tungudal í Skutulsfirði (140 Mkr).
Á árinu 2007 voru skráðar rekstrartruflanir í raforkukerfinu alls 211, en voru 262 á árinu 2006. Þar af voru 120 vegna fyrirvaralausra truflana og 91 vegna skipulagðs viðhalds og breytinga.
Orkubúið mælir gæði raforku samkvæmt staðli ÍST EN 50160 og voru allar mælingar viðunandi. Niðurstöðum þessara mælinga er skilað til Orkustofnunar árlega.
Í hitaveitukerfinu voru skráðar bilanir 20 á árinu 2007 en voru 27 árið áður. Svo sem fyrr má í flestum tilvikum rekja ástæður bilana í hitaveitukerfum til óvandaðra vinnubragða verktaka við lagningu kerfanna.
Heildarorkuöflun Orkubús Vestfjarða á árinu 2007 varð alls 248 GWh, jókst um 1,6% frá fyrra ári og skiptist þannig:
Raforkuvinnsla vatnsaflsvirkjana Orkubús Vestfjarða var 88,6 GWh, eða 35,7% orkuöflunarinnar og jókst um 11,2% frá fyrra ári. Framleiðsla vatnsaflsvélanna hefur aldrei verið meiri.
Orkuvinnsla díselstöðva var 0,7 GWh, eða 0,3% orkuöflunarinnar og var 13% minni en á s.l. ári.
Orkuvinnsla í olíukötlum vegna hitaveitna var 2,8 GWh, eða 1,1% orkuöflunarinnar og var 16% minni en á s.l. ári.
Orkuvinnsla úr borholum á Laugum í Súgandafirði og á Reykhólum er metin 13 GWh, sem er 5,2% orkuöflunarinnar og minnkaði um um 7% frá fyrra ári.
Heildarorkuvinnsla fyrirtækisins var því 105,1 GWh, eða 42,4% af heildarorkuöfluninni og jókst um 7,5% frá fyrra ári. Orkukaup af Landsvirkjun, Dalsorku, Tunguvirkjun, Sængurfossvirkjun, Hvestuveitu og Funa ásamt kaupum á jöfnunarorku frá Landsneti voru 142,9 GWh á síðasta ári, eða 57,6% orkuöflunarinnar og voru orkukaupin 2,3% minni en árið áður.
Af Dalsorku, Tunguvirkjun, Sængurfossvirkjun og Hvestuveitu voru keyptar 13,6 GWh af raforku og voru kaupin 7,3% meiri en árið áður.
Af Landsvirkjun voru keyptar 40,2 GWh af forgangsorku og minnkuðu kaupin milli ára um 7,1%. Ennfremur voru keyptar 84 GWh af ótryggðri orku á rafskautskatla og voru kaupin um 1,9% meiri en á fyrra ári fyrra ári.
Ótryggða orkan er notuð í rafskautskötlum Orkubúsins á Ísafirði, Bolungarvík, Patreksfirði, Flateyri og Suðureyri og hjá nokkrum viðskiptavinum sem hafa gert samning um kaup á ótryggðri orku.
Af sorpbrennslustöðinni Funa voru keyptar 4,6 GWh á s.l. ári sem er 7,3% minnkun frá fyrra ári.
Á s.l. ári hélt Orkubú Vestfjarða áfram rannsóknum á ýmsum möguleikum til frekari orkuöflunar á Vestfjörðum.
Tungudalsvirkjun, 700 KW virkjun í Tungudal við Skutulsfjörð, var formlega tekin í notkun 26. ágúst s.l. en raforkuframleiðsla hófst í janúarmánuði 2006.. Virkjunin nýtir að mestu miðlað vatnsrennsli sem kemur úr Vestfjarðagöngunum.
Unnið var áfram að athugun á frekari nýtingu vatns við Mjólkárvirkjun þar sem kannaður er möguleiki á 2 nýjum virkjunum jafnframt því sem hugað er að heildarendurnýjun á vélbúnaði virkjunarinnar.
Þá er einnig unnið að rannsóknum á náttúrufari í tengslum við Glámuvirkjun.
Orkubúið hefur boðið út borverk í Tungudal í Skutulsfirði þar sem borað verður eftir heitu vatni.
Eftir umfjöllun um orkuöflunina mun nú gerð grein fyrir orkusölunni 2007.
Af raforku voru seldar 136,7 GWh og jókst salan um 4,6% frá fyrra ári.
Frá hitaveitum voru seldar 82,3 GWh á síðastliðnu ári og minnkaði salan um 3,3% miðað við fyrra ár.
Heildarsala fyrirtækisins varð því 219 GWh og jókst um 1,5% milli ára.
Greiðsla ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis var 191,7 Mkr. og Orkubúsins 11,5 Mkr.. Samtals var upphitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum því greiddur niður um 203,2 Mkr. og lækkaði niðurgreiðsluupphæðin um 2,5% milli ára.
Svo sem fyrr segir jókst orkusalan um 1,0% frá fyrra ári og nam alls 219 GWh. þrátt fyrir að sala frá hitaveitum minnkaði nokkuð vegna hlýrra árferðis. Þessa aukningu má rekja til aukinnar framleiðslu virkjana OV sem tókst að selja á heildsölumarkaði. Til hitunar voru seldar 142,5 GWh sem eru um 65% af heildarorkusölu fyrirtækisins. Á alla orkusölu, nema húshitun, er lagður 24,5% virðisaukaskattur. Á húshitun var lagður 14% virðisaukaskattur sem lækkaði í 7% við skattbreytinguna 1. mars. Af virðisaukaskatti á húshitun eru 63% endurgreidd á veitusvæði Orkubúsins. Álagður skattur á húshitun er því 2,59% nettó.
Ný raforkulög tóku gildi 1/1 2005 þar sem samkeppnisþættirnir eru skildir fá einkaleyfisþáttunum. Í samræmi við hin nýju lög voru settar gjaldskrár fyrir einkaleyfisþættina þ.e. flutning og dreifingu raforkunnar og jafnframt var ákveðin gjaldskrá fyrir raforkuna sjálfa. Samkvæmt heimild í lögunum sótti Orkubúið um að hafa sérstaka gjaldskrá fyrir raforku í dreifbýli og var það heimilað. Raforkuverðið sem viðskiptavinurinn greiðir samanstendur síðan af orkuverðinu og flutnings og dreifingarkostnaðinum.
Það var ætlun stjórnvalda að greiða raforkudreifingu í dreifbýli niður að því marki að hún yrði jafndýr og raforkudreifing í þéttbýli þar sem hún er dýrust. Ekki er ráðstafað nægu fé til þessa verkefnis þannig að markmiði stjórnvalda hefur ekki verið náð. Til þessa verkefnis var á s.l. ári ráðstafað 230 Mkr. og til Vestfjarða runnu 26,2 Mkr. af því fé.
Allir raforkukaupendur hafa frá og með 1. janúar 2006 getað samið um að kaupa rafmagn af þeim sem þeir kjósa, hvort sem er til atvinnurekstrar, heimilisnotkunar eða annarra hluta en þeir eru bundnir af því að kaupa raforkuflutning og dreifingu af því fyrirtæki sem fer með raforkudreifingu þar sem þeir eru staðsettir.
Orkuverð frá Orkubúi Vestfjarða er í lægri kantinum og ekki er að merkja að viðskiptavinir Orkubúsins yfirgefi fyrirtækið vegna hagstæðari kjara hjá öðrum fyrirtækjum.
Til samanburðar er hér greint frá auglýstu raforkuverði hjá nokkrum raforkusölum.
Rafmagnsveitur ríkisins |
3,52 kr/kwh |
Orkubú Vestfjarða |
3,20 " " |
Orkuveita Reykjavíkur |
3,52 " " |
Norðurorka |
3,51 " " |
Hitaveita Suðurnesja |
3,58 " " |
Þessu til viðbótar innheimtir OV fast ársgjald 2.500.- kr. af hverjum viðskiptavin.
Ísafjarðardjúp og Flatey á Breiðafirði eru ekki tengd raforkukerfi landsins en engu að síður selur Orkubúið raforku til viðskiptavina þar á sama verði og öðrum enn sem komið er. Í Ísafjarðardjúpi er árlegt tap af þessari starfssemi um 15 Mkr. og um 5Mkr. í Flatey. Orkubúið getur ekki til langframa selt orku á þessum svæðum langt undir kostnaðarverði, það verður að gera þá kröfu til ríkisvaldsins að Ísafjarðardjúp verði tengt landskerfinu og að raforkuframleiðsla í Flatey verði niðurgreidd. Orkubúið hefur að beiðni iðnaðarráðherra ákveðið að tengja Ísafjarðardjúp við landskerfið og er gert ráð fyrir að fyrri áfanga, sem skilar um 500 KW flutningsgetu, verði unnin nú í sumar. Þessi framkvæmd er ekki arðbær og eiga eftir að fara fram viðræður milli OV og iðnaðarráðuneytis um hvernig farið skuli með stofnkostnaðinn.
Dreifing raforku á Vestfjörðum verður ávallt dýrari en á öðrum svæðum landsins og nægir í því sambandi að horfa til staðhátta og landslags.
Til samanburðar á kostnaði við raforkudreifingu ætla ég að greina frá verði í þremur notkunarflokkum hjá nokkrum orkuveitum eins og hann er nú. Öll verð eru með VSK.
Almennur taxti: (miðað við 4000 kWh á ári)
Rafmagnsveitur ríkisins þéttbýli |
28.900 kr/ári |
Rafmagnsveitur ríkisins dreifbýli |
36.939 " " |
Orkubú Vestfjarða þéttbýli |
27.116 " " |
Orkubú Vestfjarða dreifbýli |
38.844 " " |
Orkuveita Reykjavíkur |
26.127 " " |
Norðurorka |
24.850 " " |
Hitaveita Suðurnesja |
26.804 " " |
Almennur taxti: (miðað við 40.000 kWh á ári)
Rafmagnsveitur ríkisins þéttbýli |
166.613 kr/ári |
Rafmagnsveitur ríkisins dreifbýli |
218.176 " " |
Orkubú Vestfjarða þéttbýli |
165.150 " " |
Orkubú Vestfjarða dreifbýli |
226.318 " " |
Orkuveita Reykjavíkur |
185.686 " " |
Norðurorka |
164.688 " " |
Hitaveita Suðurnesja |
182.778 " " |
Almennur taxti: (40.000 kWh á ári, 85% upphitun 15% önnur notkun):
Rafmagnsveitur ríkisins þéttbýli |
48.165 kr/ári |
Rafmagnsveitur ríkisins dreifbýli |
75.596 " " |
Orkubú Vestfjarða þéttbýli |
54.069 " " |
Orkubú Vestfjarða dreifbýli |
74.960 " " |
Þann 1. mars 2007 voru verðskrár Orkubúsins hækkaðar, fyrir raforkudreifingu um 8% og verðskrár fyrir hitaveitur og raforkusölu um 6%.
Þann 1. mars s.l. voru verðskrár Orkubúsins hækkaðar, fyrir raforkudreifingu um 6% og verðskrár fyrir hitaveitu og raforkusölu um 5%.
Þrátt fyrir hækkun á verðskrá raforkudreifingar verða tekjur OV einungis um 90% af þeim tekjum (Tekjuramma) sem eftirlitsaðilinn Orkustofnun telur að séu nauðsynlegar til að standa undir rekstri rafdreifikerfis Orkubúsins.
Orkubú Vestfjarða hefur ávallt haft að leiðarljósi að halda orkuverði í lágmarki á veitusvæði sínu en nú var svo komið að ekki var unnt að komast hjá boðuðum hækkunum.
Þessar hækkanir á gjaldskrám eru nauðsynlegar til þess að mæta hækkun á orkuverði frá Landsvirkjun, hækkunum á flutningsgjaldskrá Landsnets sem og hækkun annarra kostnaðarliða í rekstri fyrirtækisins.
Á árinu 2007 varð afkoma Orkubús Vestfjarða örlítið lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði að upphæð 59 Mkr. en samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 45,2 Mkr., en þegar tekið er tillit til bókfærðs tekjuskatts sem nemur um 8,1 Mkr. er hagnaður ársins um 37,1 Mkr.. Afskriftir námu alls 201 Mkr.. Eignir fyrirtækisins í árslok 2007 voru alls 4.955 Mkr. og heildarskuldir 545 Mkr.. Eigið fé nam því alls 4.410 Mkr. sem er um 89% af heildafjármagni.
Heildarlaunagreiðslur ársins 2007 voru 312,2 Mkr. sem er 2,7% hækkun frá árinu á undan. Unnin ársverk voru 56 og og fækkaði um 1 frá fyrra ári.
Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Sigurjón Kr. Sigurjónsson mun hér á eftir leggja fram og skýra ársreikning fyrirtækisins og fjármálastöðu þess og hef ég því ekki fleiri orð um fjármálin og niðurstöðu reikninga.
Iðnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda og orkusviði og er það nú til meðferðar hjá iðnaðarnefnd að lokinni 1. umræðu. Tilgangur frumvarpsins er að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk sérleyfis- og samkeppnisþátta í starfsemi orkufyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu þarf að greina í sundur samkeppnis- og sérleyfisrekstur í aðskildum fyrirtækjum. Í minni fyritækjum líkt og OV er þetta ekki gerlegt nema með víðtækum sameiningum við önnur fyrirtæki eða miklum kostnaðarauka samfara uppskiptingunni. Því er að finna í frumvarpinu undanþáguákvæði sem segir að orkufyrirtæki með veltu undir 2 milljörðum króna séu undanþegin ákvæðum frumvarpsins um fyrirtækjaaðskilnað. Þetta ákvæði er mjög mikilvægt því án þess væri OV í mjög erfiðri stöðu að starfa áfram sem sjálfstætt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Vestfjörðum.
Síðastliðinn áratug hefur starfsemi orkufyrirtækja á Íslandi búið við miklar breytingar á rekstrarumhverfi sínu. Lagafrumvörp varðandi orkufyrirtækin hafa verið lögð fram á Alþingi, sum orðið að lögum og önnur dagað uppi. Í öllum breytingum eru falin tækifæri og með þrautseigju og þolimæði okkar góða starfsfólks munum við takast á við þær breytingar sem framundan eru, grípa tækifærin sem gefast og ná því markmiði að á Vestfjörðum starfi áfram öflugt orkufyrirtæki til heilla fyrir vestfirskar byggðir .
Eftir 30 ár er Orkubúið öflugt fyrirtæki a.m.k. á vestfirskan mælikvarða og er velgengni þess fyrst og síðast tikomin vegna ötuls og öflugs starfsfólki sem sinnt hefur starfi sínu af trúmennsku og alúð. Öllum starfsmönnum Orkubúsins núverandi sem og fyrrverandi eru fluttar bestu þakkir fyrir þátt þeirra í framgangi fyrirtækisins.
Ég flyt samstarfsfólki mínu hjá Orkubúi Vestfjarða hf. bestu þakkir fyrir góð störf og góðan samstarfsvilja. Ennfremur þakka ég stjórn fyrirtækisins og stjórnarformanni farsælt og ánægjulegt samstarf.
Hafið þökk fyrir áheyrnina.