Afkastamælingar borholu á Patreksfirði lofa góðu

29. ágúst 2025

Óhætt er að segja að niðurstöður jarðhitaleitar á Patreksfirði hafi farið fram úr væntingum. Síðastliðna helgi fundust gjöfular vatnsæðar í borholu Orkubús Vestfjarða undir Geirseyrarmúla á Patreksfirði. Hitastig vatnsins mælist 37 til 38°C sem er heitara en vonir stóðu til í upphafi borana, þar sem reiknað var með að ná allt að 30°C heitu vatni.

„Þetta er gríðarlega ánægjulegt skref fyrir samfélagið hér á Patreksfirði. Niðurstöðurnar sýna að þessi borhola getur með hjálp varmadæla annað húshitun bæjarins. Hefðbundnar rafkyntar fjarvarmaveitur Orkubúsins standa allar frammi fyrir áskorunum í rekstri og því má segja að þetta volga vatn tryggi veitunni á Patreksfirði nýtt líf“ segir orkubússtjóri.

Fyrsta afkastamæling á holunni fór fram á miðvikudag og sýndi allt að 32 lítra á sekúndu í sjálfrennsli. Það er talinn mikill kostur að holan sé í sjálfrennsli, þar sem ekki er þörf á því að setja dælu niður í holuna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá orkubússtjóra og bæjarstjórann í Vesturbyggð ásamt framkvæmdastjórn Orkubúsins, fulltrúum sveitarfélagsins og Bláma. Þar eru einnig jarðfræðingar frá ÍSOR sem hafa stýrt rannsóknum og ráðgjöf við jarðhitaleitina, bæði á Patreksfirði og á Ísafirði.

Það var jarðborinn Freyja frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða sem notaður var við borunina á vinnsluholunni, en hann mun á næstu dögum bora þriðju rannsóknarholuna á svæðinu í ár, í því skyni að fá betri heildarmynd af svæðinu. 

Fram undan er frekari úrvinnsla á mæliniðurstöðum úr vinnsluholunni og nærliggjandi rannsóknarholum. Til þess að nýta jarðhitavatnið þarf uppbygging á veitunni að eiga sér stað. Þá stendur til að byggja nýja kyndistöð ásamt miðlunargeymum. Viðræður við Vesturbyggð um mögulega staðsetningu fara því í hönd.

Vinna sem þegar hefur farið fram við forhönnun vegna nýtingar jarðhitans á Ísafirði mun nýtast vel við hönnun kerfisins á Patreksfirði, því þótt hitastig og magn séu ólík er tæknilausnin sambærileg.

Haft var á orði að Patreksfjörður teldist ekki lengur á köldu svæði, heldur ylvolgu.

2025-08-27-Patreksfjörður_1.jpg

2025-08-27_Patreksfjörður_2.jpg

22. ágúst 2025

Jákvætt skref í jarðhitaleit á Patreksfirði

Undanfarnar vikur hefur Orkubú Vestfjarða staðið fyrir borun á þremur rannsóknarholum og nýrri...

03. júlí 2025

Orkubú Vestfjarða óskar eftir tilboðum í viðbyggingu á Ísafirði og nýbyggingu í Súðavík

2025-04 – Viðbygging Skeiði 7, Ísafirði og ný spennistöð Langeyri, Súðavík

15. maí 2025

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða 2025

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða verður haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði föstudaginn 16. maí...