Frá Stjórn Orkubús Vestfjarða

04. janúar 2013

Í framhaldi af óveðri því er gekk yfir Vestfirði og stóran hluta landsins síðustu daga nýliðins árs óskar stjórn Orkubús Vestfjarða að koma eftirfarandi á framfæri.

Stjórn Orkubúsins er þakklát starfsmönnum þess fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig undanfarið við erfiðar aðstæður til að tryggja raforkuframleiðslu og flutning. Jafnframt skal komið þakklæti á framfæri til þeirra fjölmörgu aðila; einstaklinga, björgunarsveitafólks, lögreglu, Vegagerðar og annarra sem aðstoðuðu starfsmenn Orkubúsins þessa daga. Það hefur án efa reynt á marga að þurfa að berjast í óblíðu íslensku vetrarveðri við að reyna að tryggja íbúum á þjónustusvæði Orkubúsins orku, kraft og yl.

Líkt og áður hefur verið fjallað um í fjölmiðlum var hér við að eiga eitthvað versta veður sem gengið hefur yfir Vestfirði um árabil og því miður olli það umtalsverðum bilunum í dreifikerfi Orkubúsins og Landsnets á Vestfjörðum. Veðurofsinn gerði ómögulegt að bregðast við því, enda voru allar samgöngur úr lagi milli byggðarlaga, hvað þá á fjöllum. Óvæntar bilanir í varaaflstöðvum auk bilunar í spenni á Ísafirði bættu ekki úr skák.

Stjórn Orkubús Vestfjarða harmar að ekki hafi verið unnt að þjónusta viðskiptavini í samræmi við væntingar þeirra á meðan að óveðrið gekk yfir og að íbúum hafi ekki fundist upplýsingagjöf fyrirtækisins nægileg.

Nú þegar raforkudreifing er að komast í eðlilegt horf, munu starfsmenn Orkubúsins fara yfir atburðarrás síðustu daga og meta hvað fór úrskeiðis og af hverju. Stjórn og stjórnendur Orkubúsins munu síðar í mánuðinum fara yfir niðurstöður þeirrar greiningar og á grundvelli hennar endurmeta verklag til að auka áreiðanleika þeirrar mikilvægu þjónustu sem Orkubúið veitir við dreifingu og framleiðslu raforku og við upplýsingagjöf.

Fyrirhuguð er endurnýjun Fossárvirkjunar á þessu ári, sem mun tryggja nokkra aukningu í raforkuframleiðslu á Ísafirði og þannig auka afhendingaröryggi þar nokkuð. Jafnframt er verið að meta áætlanir Orkubúsins um fjárfestingar í raforkukerfum og virkjunum næstu ár, en þar mun aukin þrífösun í dreifbýli og afhendingaröryggi verða meðal áherslna, þótt takmörk séu fyrir fjárfestingargetu þar sem dreifingarkostnaður raforku í dreifbýli er mikil og erfitt að velta kostnaði af viðbótarfjárfestingum á notendur, þótt það sé vegna endurbóta og aukins öryggis.

Jafnframt verður fundað um afhendingaröryggi raforku á fundi með fulltrúum Landsnets á næstu dögum.

Orkubú Vestfjarða mun áfram kappkosta að þjónusta þess verði eins og best verður á kosið og nota reynsluna af atburðum síðustu daga til þess að bæta úr þar sem úrbóta er þörf í samstarfi við hagsmunaaðila.

Fyrir hönd stjórnar Orkubús Vestfjarða,

Viðar Helgason, formaður stjórnar.

25. ágúst 2021

Uppgjör orkureikninga

Nú í september og október verður farið í uppgjör í orkureikningum, en orkureikningar eru unnir...

13. maí 2021

Friðlýsingarskilmálar þjóðgarðs – þörf á upplýstri umræðu

Orkubú Vestfjarða (OV) hefur ritað sveitarfélögum á Vestfjörðum ásamt Vestfjarðastofu, bréf vegna...

30. mars 2021

Úthlutun samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða 2021

Alls bárust 78 umsóknir og að þessu sinni voru veittir 53 styrkir samtals að fjárhæð kr. 5.000.000.