Mikið framkvæmdasumar hjá Orkubúinu

27. ágúst 2014

Í sumar hafa miklar framkvæmdir staðið yfir hjá Orkubúinu víðsvegar á Vestfjörðum.

Í Árneshreppi á Ströndum hefur að undanförnu verið unnið að plægingu línu yfir Trékyllisheiði og er sú framkvæmd liður í að styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu.

Í Bolungarvík hefur verið unnið að því að leggja línur vegna flutnings á aðveitustöð í nýtt húsnæði sem Landsnet hefur byggt og hýsir það einnig nýja varaaflstöð sem stefnt er á að taka í notkun í haust.

Á Barðaströnd hefur verið unnið að plægingu á hluta Barðastrandarlínu og gangi áætlanir ársins eftir verður línan komin í jörð alla leið að Krossholti.

Framkvæmdir eru hafnar í Engidal á Ísafirði vegna nýrrar Fossárvirkjunar.  Bygging stöðvarhúss er í fullum gangi sem og undirbúningur á lagningu fallpípunnar. Lögð var áhersla á að vinna fyrst þar sem mesti brattinn er í hlíðinni (25°) og kom þá í ljós að klöpp þar er meiri en reiknað var með og varð að endurhanna þann hluta verksins. Framleitt verður eins mikið og kostur er af efni umhverfis pípuna með því að brjóta og harpa á staðnum. Þess má geta að nýja fallpípan fer undir ánna í stað þeirrar gömlu sem fór yfir hana á stöplum.

Færsla aðveitustöðvar úr Stórurð inn að Skeiði á Ísafirði er langt komin og fer vígsla stöðvarinnar fram 3. september n.k.  Allur búnaður aðveitustöðvarinnar verður innan dyra og fellur stöðin þannig vel að umhverfinu auk þess sem það eykur rekstraröryggi.

04. september 2025

Viðvörun – Fölsuð QR kóðamerking á hleðslustöðvum !

Við viljum vara við því að óprúttnir aðilar hafa komið fyrir fölsuðum QR kóðum á nokkrum...

29. ágúst 2025

Afkastamælingar borholu á Patreksfirði lofa góðu

Óhætt er að segja að niðurstöður jarðhitaleitar á Patreksfirði hafi farið fram úr væntingum.

22. ágúst 2025

Jákvætt skref í jarðhitaleit á Patreksfirði

Undanfarnar vikur hefur Orkubú Vestfjarða staðið fyrir borun á þremur rannsóknarholum og nýrri...