Tveir starfsmenn Orkubúsins fá viðurkenningu

24. september 2014

Tveir starfsmenn Orkubús Vestfjarða, þeir Þorbjörn Guðmundsson og Björgvin M Hallgrímsson fengu í gær viðurkenningu frá forstjóra Landsnets, Þórði Guðmundssyni, fyrir að hafa með miklu snarræði og hárréttum viðbrögðum bjargað lífi starfsmanns Landsnets  fyrr í sumar.

Atvikið átti sér stað 13. ágúst.  Björgvin kemur að manninum þar sem hann liggur á gólfinu á verkstæði Orkubúsins á Patreksfirði og augljóslega var eitthvað að honum.  Björgvinn nær strax í Þorbjörn og þeir hefja strax endurlífgun og hringja eftir aðstoð.

Í starfsstöðinni á Patreksfirði er hjartastuðtæki og var það strax sett á manninn.  Tækið greinir ástand og kallar eftir því að gefið sé rafstuð og í kjölfarið að hafin sé endurlífgun.  Maðurinn sýnir viðbrögð eftir eitt  rafstuð ásamt hjartahnoði  í dálitla stund.

Rétt eftir að hann fer að anda koma læknir, sjúkraflutningsmaður ásamt  lögreglumönnum inn á verkstæðið og taka yfir en þá er maðurinn að ná meðvitund.  Í kjölfarið er kallað eftir sjúkraflugi.

Þennan dag sönnuðu frábær viðbrögð og þjálfun starfsmanna sig algerlega og fumlausum aðgerðum þeirra Björgvins og Þorbjarnar má þakka það að þessi starfsmaður Landsnets sé á lífi í dag.

Hjartastuðtækið kom að góðum notum.  Blástursmaskar eru nauðsynlegur fylgibúnaður með þessum tækjum ásamt einnota rakvélum.  Þessi tæki eru staðsett í öllum starfsstöðvum Orkubúsins og starfsmenn fá reglubundna þjálfun í meðferð þeirra ásamt almennri þjálfun í fyrstu hjálp.

Þórður, forstjóri Landsnets bar björgunarmönnunum kveðju félaga síns og tjáði þeim að hann væri við góða heilsu í dag eftir mikla endurhæfingu. 

Orkubúið þakkar einnig þessum starfsmönnum fyrir sín góðu viðbrögð og við ættum að líta á þetta atvik sem áminningu þess að öryggismál og þjálfun starfsfólks verði áfram sem hingað til í algerum forgangi hjá okkur starfsmönnum.

201409-1-1.jpg

04. september 2025

Viðvörun – Fölsuð QR kóðamerking á hleðslustöðvum !

Við viljum vara við því að óprúttnir aðilar hafa komið fyrir fölsuðum QR kóðum á nokkrum...

29. ágúst 2025

Afkastamælingar borholu á Patreksfirði lofa góðu

Óhætt er að segja að niðurstöður jarðhitaleitar á Patreksfirði hafi farið fram úr væntingum.

22. ágúst 2025

Jákvætt skref í jarðhitaleit á Patreksfirði

Undanfarnar vikur hefur Orkubú Vestfjarða staðið fyrir borun á þremur rannsóknarholum og nýrri...