Ársfundur Orkubús Vestfjarða var haldinn í Edinborgarhúsinu í gær, fimmtudaginn 7. maí 2015. Þetta var í þriðja sinn sem ársfundurinn var öllum opinn og var hann vel sóttur eins og sjá má af meðfylgjandi myndum.
Á fundinum flutti Viðar Helgason, stjórnarformaður Orkubúsins, ávarp og Kristján Haraldsson orkubússtjóri fór yfir rekstur fyrirtækisins á liðnu ári. Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs, flutti erindi um vindorku og að lokum sagði Stefán Freyr Baldursson, verkfræðingur á veitusviði, frá snjallnetskerfi Vestfjarða, sem er tækninýjung á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu.
Að fundinum loknum var boðið upp á léttar veitingar.