Orkubú Vestfjarða

30. júní 2016

201606-1-1.jpg

Ég læt af störfum Orkubússtjóra í dag, 30. júní, eftir rúmlega 38 gefandi og gæfurík ár í því starfi. Það er því vel við hæfi að ég líti um öxl og skoði farinn veg.

Það voru framsýnir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum með Fjórðungssamband Vestfirðinga í fararbroddi sem hófu að huga að því hvernig orkumálum Vestfirðinga yrði best fyrirkomið í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar. Það var sama hvert horft var alls staðar blöstu við verkefnin, meginþorri húsa var kynntur með olíu og hluti raforkunnar var framleiddur með díselvélum.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson þáverandi alþingismaður tók málið upp á arma sína, barðist fyrir stofnun orkufyrirtækis á fjórðungsvísu af öllu afli vel studdur af Vestfirðingum. Hann vann Gunnar Thoroddsen á band sitt og Gunnar kom málinu í gegn hjá ríkisstjórninni. Þorvaldur Garðar er því réttnefndur “ljósmóðir” Orkubúsins eins og Guðmundur Ingi Kristjánsson, skáld og bóndi á Kirkjubóli, komst að orði í vísu ortri á aðalfundi Orkubúsins 1979 þegar fluttar voru kveðjur frá þingmönnum sem komust ekki til fundarins.

Engan fjarstaddir þingmenn þreyta
En Þorvaldur Garðar kom hingað fús
Líklega má hann líka heita 
Ljósmóðir þessa Orkubús.

Full ástæða væri að nefna hér fleiri til sögunnar, að sinni verður það ekki gert en öllum sem komu að því mikla verki eru færðar bestu þakkir.

Þann 26. ágúst 1977 undirrituðu vestfirskir sveitarstjórnarmenn og Gunnar Thoroddsen þáverandi iðnaðarráðherra stofnsamning að Orkubúi Vestfjarða og hóf fyrirtækið rekstur um áramót rúmum 4 mánuðum síðar.

Markmiðin með stofnun Orkubús Vestfjarða voru þríþætt, í fyrsta lagi að stórauka framboð innlendrar orku á Vestfjörðum, í öðru lagi að lækka orkuverð á veitusvæðinu og síðast en ekki síst að flytja forræðið í þessum mikilvæga málaflokki heim í fjórðunginn ásamt þeim störfum sem honum tengdust.

Þegar nú er litið til baka verður ekki annað séð en vel hafi tekist að uppfylla þessi markmið.

Á fyrsta starfsári sínu seldi Orkubú Vestfjarða orku sem nam um 55 GWh en á s.l. ári varð heildarorkudreifingin um 235 GWh, sem jafngildir 330% aukningu.

Orkubúið er að ljúka endurnýjun flestra vatnsaflsvirkjana sinna og endurnýjun rafdreifikerfisins í sveitum er komin vel á veg, yfir 50% kerfisins hefur nú verið lagður í jörð og er reiknað með að því verki ljúki á næstu 15 árum.

Með nýju varaaflstöðinni í Bolungarvík hefur afhendingaröryggi á Vestfjörðum færst til mun betra horfs og má tala um byltingu í þeim efnum. Landsnet horfir nú til þess að styrkja flutningskerfi sitt innan Vestfjarða enn frekar. Þrátt fyrir tal ýmissa ráðamanna um orkuskort á Vestfjörðum hefur Orkubúið getað mætt óskum allra sem hafa óskað orku á Vestfjörðum fram að þessu. Ljóst er að ef af orkukrefjandi atvinnuuppbyggingu verður á Vestfjörðum þarf Landsnet að leggja aðra flutningslínu til okkar.

Á starfstíma Orkubúsins hefur orkuverð á Vestfjörðum lækkað að raunvirði og er nú svo komið að verð samkvæmt almennum taxta er rúm 40% af því sem það var þegar Orkubúið hóf starfsemi sína. Stjórn Orkubús Vestfjarða hefur frá upphafi haft það að stefnumiði að halda orkuverði á Vestfjörðum eins lágu og nokkur kostur er og því ekki gert kröfu um að fyrirtækið skilaði hagnaði og arði til eignaraðila fyrr en á síðustu árum. Þessi stefna hefur leitt til þess að gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hafa verið með þeim lægstu í landinu.

Allt frá upphafi hafa flestir starfsmenn Orkubús Vestfjarða verið búsettir á Vestfjörðum og stjórnarmenn hafa oftast verið úr röðum heimamanna.

Orkubúið hefur sinnt sporgönguhlutverki í mörgum málum tengdum orkufyritækjunum og má þar m.a. nefna.

  • Orkubúið er fyrsta og eina orkufyrirtækið sem þjónar heilum landshluta.
  • Orkubúið setti á stofn fyrstu rafkynntu hitaveituna á Íslandi. Rafkynntar hitaveiturnar  eru nú í 6 þéttbýliskjörnum og eiga þær stóran þátt í góðri fjárhagsstöðustöðu fyritækisins.
  • Orkubúið hóf fyrst allra orkufyrirtækja samrekstur hitaveitu og rafveitu. Þetta hefur síðan orðið raunin um allt land.
  • Orkubúið var fyrst orkuvinnslufyrirtækja að lengja afskrifatíma vatnsaflsvirkjana úr 40 árum í 60 ár. Skömmu síðar fylgdi Landsvirkjun í kjölfarið.
  • Orkubúið var fyrst allra orkufyrirtækja landsins til að setja upp og fá innra öryggisstjórnunarkerfi samþykkt af Löggildingarstofu.
  • Orkubúið er komið lengst allra veitufyrirtækja á Íslandi með endurnýjun orkumæla og uppsetningu fjarálesanlegra mæla.
  • Orkubúið býður viðskiptavinum sínum lægsta verð á samkeppnismarkaði raforku sem opinberlega er auglýst í dag.

Árið 2001 var Orkubúinu breytt í hlutafélag og skömmu síðar seldu sveitarfélögin hluti sína í fyrirtækinu til ríkisins. Fyrir hluti sína fengu sveitarfélögin um 2.800 milljónir króna sem kom sér vel fyrir illa stæða sveitarsjóði. Síðan hefur Orkubúið verið að fullu í eigu ríkisins. Framtíð Orkubúsins hefur á stundum verið frekar óljós eftir að fyrirtækið komst að fullu í eigu ríkisins og ýmsum möguleikum varpað fram.

M.a hefur verið rætt um að:

  • Skipta Orkubúinu upp þar sem raforkuframleiðsla og sala væri í sjálfstæðu fyrirtæki, jafnvel með höfuðstöðvar í öðrum landsfjórðungi.
  • Sameina Orkubúið og RARIK.
  • Styrkja Orkubúið með því að bæta starfssemi RARIK í norðvesturkjördæmi við fyrirtækið.
  • Sameina Orkubúið og RARIK Landsvirkjun í eitt fyrirtæki.

Þegar vestfirsk sveitarfélög seldu hlut sinn í Orkubúinu misstu þau yfirráð yfir orkumálum í fjórðungnum. Núverandi eigandi íslenska ríkið virðist ánægt með núverandi stöðu mála því ekki hefur bólað á neinum sameiningarhugleiðingum síðustu ár. Það er þó full þörf á að vanda sig áfram við rekstur Orkubúsins því það er aldrei að vita hvenær eigandanum dettur í hug að dusta rykið af gömlum sameiningarhugmyndum. Ég er þeirrar skoðunar að heillavænlegt sé að stjórn orkumála sé heima í héraði en hvar eignarhaldið liggur skipti minna máli. Það sem skiptir vestfirskt samfélag öllu máli er að eigandi Orkubúsins leiti allra ráða að styrkja fyrirtækið breikki starfssvið þess og fjölgi verkefnum þess. Við skulum vera þess vel meðvituð að verði Orkubúið sameinað öðrum orkufyrirtækjum í eigu ríkisins er viss hætta á að 20-25 störf hjá OV flytjist á braut. Það er því nauðsynlegt að Vestfirðingar standi vörð um þetta mikilvæga fyrirtæki.

Þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað má segja að umbrot hafi átt sér stað á íslenskum orkumarkaði. Ekki voru allir sáttir við þetta brölt og gerðu allt hvað þeir gátu til að leggja stein í götu þessa nýja fyrirtækis og spáðu því ekki langra lífdaga. Enn aðrir bundu miklar vonir við að stofnun Orkubúsins væri aðeins byrjunin á mikilli uppstokkun á orkumarkaði hér á landi. Hvorugt gekk þó eftir, það voru ekki stofnuð fleiri landshlutafyrirtæki til að sinna orkumálum sinna byggða en Orkubúið tók til starfa á einu erfiðasta rekstrarsvæði RARIK og lifði af þrátt fyrir hrakspár og ýmsa erfiðleika. Í dag er Orkubúið öflugt fyrirtæki a.m. k. á vestfirskan mælikvarða og er velgengni þess fyrst og síðast tikomin vegna ötuls og öflugs starfsfólki sem sinnt hefur starfi sínu af trúmennsku og alúð.

Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun minni að helsta auðlind hvers fyrirtækis sé starfsfólk þess. Þessarar auðlindar verður að gæta og með öllum ráðum hlú að henni. Hjá Orkubúi Vestfjarða er markvisst unnið að öflugu vinnuverndarstarfi þar sem öryggi starfsmanna er sett í öndvegi. Starfsmennirnir mæta heilir til starfa í upphafi hvers vinnudags og stjórnendur og starfsmenn OV leggja allt í sölurnar til að þeir, að loknum vinnudegi, komi aftur heilir heim í faðm fjölskyldu sinnar. Á síðasta ári voru engar skráðar fjarvistir starfsmanna OV vegna vinnuslysa.

Öllum starfsmönnum og stjórnarmönnum Orkubúsins núverandi sem og fyrrverandi flyt ég bestu þakkir fyrir þátt þeirra í framgangi fyrirtækisins. Hafið öll hjartans þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf og megi framtíðin verða ykkur, nýjum orkubússtjóra og Orkubúinu gjöful.

 

Kristján Haraldsson

orkubússtjóri

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...