Ný heimasíða – nýtt merki – ný ásýnd

25. apríl 2018

Ný heimasíða

Orkubú Vestfjarða opnar í dag nýja heimasíðu ov.is. Með breyttu landslagi höfum við lagt áherslu á góða virkni síðunnar í snjalltækjum. Á heimasíðunni geta almennir notendur nálgast flestar þær upplýsingar sem tengjast viðskiptum við fyrirtækið. T.d. er hægt að nálgast upplýsingar um viðskipti á „mínum síðum“ en þar geta notendur fundið allar upplýsingar um notkun, reikninga og greiðslustöðu sína.

Markmiðið með endurnýjun síðunnar er að gera hana einfaldari og skilvirkari fyrir viðskiptavini okkar.  Þetta er gert m.a. með því að afmarka betur söluhluta síðunnnar sem þjónar öllum sem kaupa orku af Orkubúinu, hvar sem þeir eru staddir á landinu. Aðrir hlutar síðunnar tengjast meira þeim viðskiptavinum sem eru á veitusvæði Orkubúsins á Vestfjörðum og kaupa því dreifingu og flutning hjá okkur.

Einnig er að finna tengil á smáforrit OV „OV tilkynningar“  sem notendur geta hlaðið inn í snjallsíma til að fá sendar nýjustu upplýsingar þegar bilun kemur upp í raforkukerfinu.

Nýtt merki

Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá því að Orkubú Vestfjarða hóf starfsemi hefur stjórn félagsins ákveðið að endurmarka hið gamalkunna merki fyrirtækisins. Hið nýja merki er náskylt því gamla en tekur ákveðnum breytingum sem gera þetta kunna form einfaldara, sterkara og heilsteyptara. Upprunalega merki Orkubúsins var hannað af Ólafi Kristjánssyni (Óla málara), fyrrum bæjarstjóra Bolungarvíkur og píanóleikara og var lögð áhersla á að halda „djassinum” í hinu góða merki OV.  

Það er í björtum, bláum og hlýjum lit sem skírskotar vel til hreinleika orkunnar sem Orkubúið framleiðir og dreifir. Á tæknilegum nótum þá minnir merkið á úrkomu sem safnað er í lón til að byggja upp þrýsting til orkuframleiðslu í vatnshverflum. Þetta er gert með því að hafa litinn ljósan efst en dökkna þegar neðar dregur í merkinu.

Merki OV er ýmist notað eitt og sér eða með nafni fyrirtækisins. Þegar nafnið er notað sem hluti merkisins er notað hátt og mjótt hástafaletur. Merkið mun taka yfir gamla merkið í áföngum, fyrst um sinn verður það mest áberandi á vef Orkubúsins, fánum og auglýsingaefni.

Ný ásýnd

Það er von starfsfólks Orkubús Vestfjarða að nýtt merki og ný heimasíða fái að njóta sín vel. Við viljum halda áfram að bæta okkur og keppumst við í hvívetna að gera betur fyrir viðskiptavini okkar. Við vonumst til að geta skapað góðan grunn að bjartri ásýnd fyrirtækisins og horfum björt til framtíðar nú þegar við stöndum á þeim tímamótum að fagna 40 árum frá stofnun Orkubús Vestfjarða. 

01. desember 2022

Að virkja og vernda loftslag – hvar á að virkja ?

Orkuskiptin kalla á vangaveltur um hvort þörf sé á nýjum virkjunum.  Ef útrýma á jarðefnaeldsneyti...

28. nóvember 2022

Þrjár nýjar hleðslustöðvar

Nú hafa verið teknar í notkun þrjár nýjar hleðslustöðvar hjá Orkubúi Vestfjarða, tvær á Hvítanesi...

14. nóvember 2022

Ný kynslóð af raforkumælum í Súðavík

Árið 2005 hóf Orkubúið innleiðingu á snjallmælum fyrst veitna.