Hagnaður af rekstri Orkubúsins

30. maí 2023

Orkubú Vestfjarða skilaði 196 millj. króna hagnaði á árinu 2022 í samanburði við 329 millj. kr. hagnað árið á undan.  Þetta var meðal þess sem fram kom á ársfundi Orkubúsins sem haldinn var á fimmtudaginn.  Skerðing á afhendingu skerðanlegrar orku til rafkyntra hitaveitna, vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum hjá Landsvirkjun, hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins og má gera ráð fyrir að hagnaðurinn hefði verið nær 390 millj. kr. ef skerðingin hefði ekki komið til.

Heildartekjur félagsins voru 3.461 millj. kr. og hækkuðu um 9%, þar af voru tekjur af raforkusölu 925 millj. kr. en tekjur af raforkudreifingu 1.480 millj. kr..  Tekjur af sölu á heitu vatni hækkuðu um 8% og voru alls 850 millj. Kr..  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 577 millj. kr. eða 212 millj. kr. lakari en í fyrra af ofangreindum ástæðum.  Launakostnaður hækkaði um 5,9% á milli ára, en stöðugildi voru 60 og eru óbreytt frá síðasta ári.

Fjárfestingar ársins 2022 námu alls 805 millj. kr..  Um var að ræða miklar fjárfestingar í þrífösun dreifikerfisins í dreifbýli auk fjárfestinga í þéttbýlinu vegna aukinna umsvifa í atvinnulífinu.

Verulegar breytingar urðu á efnahagsreikningi félagsins á milli ára, þar sem Orkubúið seldi á síðasta ári 5,98% hlut sinn í Landsneti til ríkisins fyrir ríflega 4 milljarða króna á árinu.

Eigin framleiðsla Orkubúsins vegna raforkusölu forgangsorku var 94,6 GWst og jókst um 2,79% á milli ára.  Framleiðsla á heitu vatni með olíukötlum tífaldaðist á milli ára úr 1,8 GWst í 18 GWst.  Alls var orkuöflun á árinu 267 GWst. 

Skerðing á afhendingu skerðanlegrar orku til rafkyntra hitaveitna hafði afgerandi áhrif á kolefnisspor fyrirtækisins á síðasta ári.  Þvert á markmið fyrirtækisins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá tífaldaðist losunin frá olíukötlunum á milli ára.

Á fundinum fóru Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður og Elías Jónatansson orkubússtjóri yfir starfsemi félagsins á árinu 2022 og þau verkefni sem eru á döfinni á þessu ári.  Í máli þeirra beggja kom fram sérstök áhersla á mikilvægi þess að félagið gæti styrkt eigin orkuöflun verulega og var bent sérstaklega á tvo virkjunarkosti í því efni, 9,9 MW Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði og 20 til 30 MW Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði.  Einnig var fjallað um aukna orkuöflun með frekari nýtingu jarðhita, en nú er að hefjast jarðhitaleit á Ísafirði, Patreksfirði og á Gálmaströnd í Steingrímsfirði á vegum Orkubúsins.

Í stjórn Orkubús Vestfjarða voru kjörin þau Illugi Gunnarsson, Gísli Jón Kristjánsson, Unnar Hermannsson, Valgerður Árnadóttir og Viktoría Rán Ólafsdóttir.

Elías_Jónatansson.jpg

Illugi_Gunnarsson.jpg

22. janúar 2025

Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli?

Virkjun vatnsafls og jarðhita á Íslandi hefur skilað Íslandi óumdeildu forskoti í orkuskiptum yfir...

09. janúar 2025

Breytingar á verðskrá Orkubús Vestfjarða 1. Janúar 2025

Verðskrár Orkubús Vestfjarða taka eftirfarandi breytingum frá og með 1. Janúar 2025.

20. desember 2024

500þ. króna styrkur til Björgunarsveitarinnar Kofra í Súðavík

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Halldór Halldórsson forstjóri Íslenska...