Góð afkoma árið 2023

22. maí 2024

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða var haldinn föstudaginn 17. maí sl. í Edinborg á Ísafirði.  Góð mæting var á fundinn, þar sem Elías Orkubússtjóri fór yfir starfsemi ársins 2023 í stuttu máli, afkomu ársins, áskoranir í rekstrinum og tækifæri til frekari orkuöflunar.  Stjórnarformaður Orkubúsins, Illugi Gunnarsson fór yfir stefnu félagsins í orkuöflun fyrir Vestfirði í stórum dráttum og mikilvægi þess að hægt verði að ná markmiðum varðandi orkuöflun fyrir orkuskipti og frekari vöxt í atvinnulífinu og fjölgun íbúa.  Erfitt yrði að ná þeim markmiðum ef ekki fengjust heimildir til að virkja á Vestfjörðum.  Þá var sérstök kynning á þeirri jarðhitaleit  sem Orkubúið stendur að um þessar mundir og sögu jarðhitaleitar á Vestfjörðum.

Hagnaður Orkubúsins á árinu 2023 nam 599 m.kr. fyrir skatta, sem er veruleg breyting frá árinu á undan þegar hagnaður fyrir tekjuskatt nam 199 m.kr.  Betri afkomu má ekki síst rekja til þess að ekki var um að ræða skerðingar á afhendingu raforku til rafkyntra hitaveitna Orkubúsins á árinu 2023.  Segja má að um sé að ræða skammgóðan vermi því skerðingar á afhendingu raforku til veitnanna á árinu 2024 hafa þegar kostað Orkubúið 550 m.kr.

Heildartekjur félagsins námu 3.838 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi og jukust um 10,9% á milli ára.  Tekjur af raforkusölu námu 941 millj. kr. og hækkuðu um 1,8% en tekjur af dreifingu raforku 1.629 millj. kr. og hækkuðu um 10% á milli ára.  Tekjur af sölu á heitu vatni námu 929 millj. kr. og jukust um 9,3%. EBITDA ársins var 815 millj. kr. og hækkaði um 239 millj. kr. á milli ára.

Stjórn Orkubúsins var endurkjörin á aðalfundi félagsins sem fór fram fyrr um daginn, en í stjórninni sitja  þau Illugi Gunnarsson, Gísli Jón Kristjánsson, Unnar Hermannsson, Valgerður Árnadóttir og Viktoría Rán Ólafsdóttir.

Eigin framleiðsla OV vegna raforkusölu minnkaði um 3,17% á milli ára, en framleiðsla smávirkjana á Vestfjörðum sem OV kaupir orku af minnkaði um 0,14%.  Framleiðsla á heitu vatni með olíu minnkaði úr 18 GWst 2022 í 2 GWst 2023, en alls var orkunotkun vegna framleiðslu á heitu vatni 89.7 GWst á árinu 2023.  Alls nam orkuöflunin 268,8 GWst á árinu 2023, í samanburði við 267 GWst árið á undan.

Eignir í árslok námu 15.029 millj. kr., en skuldir 4.036 millj. kr. og eigið fé var því 10.993 millj. kr.

Stöðugildi voru 61 í árslok og hafði fjölgað um eitt frá fyrra ári.  Launakostnaður hækkaði um 10,7% á milli ára og námu gjaldfærð laun og launatengd gjöld alls 1.144 millj. kr.

Líkt og undanfarin ár voru miklar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eða 1.091 millj. kr., sem er aukning frá árinu á undan þegar fjárfest var fyrir 805 millj. kr.  Um er að ræða fjárfestingu í dreifikerfinu, þ. á. m. lagningu jarðstrengja og uppbyggingu í aðveitustöðvum ásamt viðhaldi og endurnýjun í innanbæjarkerfum.  Þá voru settir fjármunir í jarðhitaleit, unnið að rannsóknum og skipulagsverkefnum vegna mögulegra virkjana

Ársskýrsla Orkubús Vestfjarða 2023

Ársreikningur Orkubús Vestfjarða 2023

Glærur Elíasar Jónatanssonar orkubússtjóra

Glærur Auðar Öglu Óladóttur

 

 AAG-DSC00920.jpg

EJ-DSC00916.jpg

IG-DSC00918.jpg

Salur-DSC00917.jpg

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...