Á þessu ári hafa orðið miklar breytingar á raforkukerfi Vestfjarða til hins betra. Með tilkomu nýrrar varaaflstöðvar í Bolungarvík, nýrra aðveitustöðva í Bolungarvík og á Ísafirði auk endurbóta á dreifikerfi hefur verið stórlega bætt úr afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þó er það þannig að mannanna verk, hversu góð sem þau eru, geta sjaldnast séð fyrir öllum áhrifum náttúruaflanna.
Á þessu ári hefur Orkubúið einnig bætt stórlega úr upplýsingastreymi bæði almennt um fyrirtækið og starfsemi þess og einnig þegar óvæntir atburðir gerast í raforkukerfinu. Orkubúið reynir að dreifa mikilvægum tilkynningum eins fljótt og mögulegt er og stöðugt er unnið að endurbótum á upplýsingastreymi fyrirtækisins.
Í rafmagnsleysi geta þeir, sem nota snjallsíma eða spjaldtölvur tengda við farsímakerfið, lesið tilkynningar frá fyrirtækinu á vefsvæði ov.is og á samfélagssíðum fyrirtækisins, sem eru á Facebook og Twitter, svo framarlega að farsímakerfið sé virkt. Við viljum því biðja viðskiptavini Orkubúsins og aðra Vestfirðinga að kynna sér vel þessa þjónustu og hvetja nágranna og vini til þess sama.